Rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar á fyrri árshluta þessa árs var tæplega 13 milljörðum lakari en áætlun borgarinnar hafði gert ráð fyrir. Nam tap A- og B-hluta borgarinnar samtals 6,7 milljörðum á árshlutanum, en áætlað hafði verið að reksturinn yrði jákvæður um 6 milljarða. Borgin ætlar að koma á fót nefnd til að fara yfir og samþykkja allar ráðningar borgarinnar með það að markmiði að draga úr launakostnaði.
Þegar eingöngu er horft til almenns reksturs borgarinnar, svokallaðs A-hluta var tapið 921 milljónir, en áætlað hafði verið að afgangur yrði upp á 857 milljónir.
Í tilkynningu borgarinnar til Kauphallarinnar vegna uppgjörsins kemur fram að helstu frávik í afkomu borgarinnar megi rekja til fjármagnsliðar, eða samtals 9 milljarðar af þeim 12,8 sem munar á milli niðurstöðu og áætlunar. „Skýrist það af hærri verðbólgu á tímabilinu en áætlun gerði ráð fyrir, lækkunar álverðs og minni matsbreytinga fjárfestingaeigna Félagsbústaða,“ segir í tilkynningunni.
Þegar horft er til rekstrarniðurstöðunnar á A- og B-hlutanum fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA), var afgangur upp á 23,1 milljarð, en það er um 2 milljörðum undir áætlun, en 4 milljörðum betri niðurstaða en á sama tíma í fyrra.
Rekstrartap A-hlutans upp á 921 milljón var 1,8 milljörðum lakari en áætlað hafði verið. Skatttekjur voru 4,5 milljörðum yfir áætlun, en rekstrargjöld voru 5,1 milljarði yfir áætlun. Þar af var frávik í rekstri skóla- og frístundasviðs 2,3 milljarðar og breyting á lífeyrisskuldbindingum 1 milljarður. Fjármagnskostnaður var einnig 1,1 milljarði yfir áætlun.
Rekstrartap A-hlutans up á 921 milljón var 1,8 milljörðum lakari en áætlað hafði verið. Skatttekjur voru 4,5 milljörðum yfir áætlun, en rekstrargjöld voru 5,1 milljarði yfir áætlun. Þar af var frávik í rekstri skóla- og frístundasviðs 2,3 milljarðar og breyting á lífeyrisskuldbindingum 1 milljðarður. Fjármagnskostnaður var einnig 1,1 milljarði fir áætlun.
Rekstrarniðurstaða A-hlutans fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 34 milljónir, en áætlun hafði gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu upp á 609 milljónir. Í tilkynningu frá borginni kemur fram að halli af málaflokki fatlaðs fólks nemi 4,8 milljörðum og hefði því rekstrarniðurstaðan verið jákvæð um 3,8 milljarða ef málaflokkurinn væri að fullu fjármagnaður af hálfu ríkisins.
„Tekjur borgarsjóðs vaxa umfram áætlanir og veltufé frá rekstri sýnir jákvæðan viðsnúning frá fyrra ári og er nú jákvætt um 7,6%. Hreinar skuldir sem hlutfall af tekjum fara lækkandi. Markmið aðgerðaáætlunar í fjármálum borgarinnar, sem samþykkt var samhliða fjárhagsáætlun, náðust og gott betur,“ segir í tilkynningunni.
Laun og launatengd gjöld borgarinnar fóru 2,1 milljarð yfir fjárheimildir. Er meðal annars vísað til þess að komið hafi til aukins kostnaðar vegna stuðnings við börn af erlendum uppruna. Þá hafi veikindahlutfall verið hátt og uppsöfnuð orlofstaka starfsfólks kallað á aukna mönnun.
„Einnig má í árshlutareikningi sjá áhrif verðlagshækkana, aukinn kostnað tengdan úrræðum sem koma til vegna framkvæmda og viðhalds á starfsstöðum, kostnað umfram áætlanir vegna óvenju snjóþungs vetrar, auk þess sem vistgreiðslur vegna barna með þroska- og geðraskanir hafa aukist umfram áætlanir,“ segir í tilkynningunni.
Þá er haft eftir borgarstjóra að reikningurinn sýni jákvæðan viðsnúning. „Árshlutareikningur sýnir jákvæðan viðsnúning í A-hluta; auknar tekjur vegna fjölgunar borgarbúa, lítils atvinnuleysis og fjölgunar á vinnumarkaði. Veltufé frá rekstri styrkist og staða handbærs fjár er sterk,“ er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í tilkynningunni.
Samhliða því að samþykkja árshlutareikninginn í dag samþykkti borgarráð að undirbúa sölu Perlunnar og skipa nefnd til að rýna ráðningar. Er það þriggja manna nefnd sem mun rýna ráðningar á vegum sviða og starfsstaða Reykjavíkurborgar og fylgja eftir tímabundnum ráðningarreglum. Á nefndin að funda vikulega og afgreiða umsóknir um ráðningar frá sviðum og miðlægum skrifstofum. Markmiðið með skipan ráðninganefndarinnar er að auka enn frekar yfirsýn Reykjavíkurborgar yfir ráðningar og aðhald með ráðningum í störf þar sem við á, í því skyni að draga úr launakostnaði. Ekki á að ráða í laus störf þar sem því verður komið við og þarf að bera allar ráðningar frá og með 1. október undir ráðninganefndina. Þetta fyrirkomulag gildir til loka næsta árs.
Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða og Eignasjóð. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf., Jafnlaunastofa sf. og Þjóðarleikvangs ehf.