Námufyrirtækið Amaroq Minerals vinnur nú að undirbúningi á tilfærslu hlutabréfa félagsins af First North yfir á Aðalmarkað Kauphallarinnar. Fyrsti dagur viðskipta á Aðalmarkaði er áætlaður þriðju vikuna í september að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu í morgun.
Amaroq var skráð á First North markaðinn í byrjun nóvember á síðasta ári, en félagið er einnig skráð á markað í Bretlandi og í Kanada. Frá því að bréf félagsins voru tekin til viðskipta hér á landi hefur gengi þeirra hækkað um 51%.
Umsóknarferli vegna töku hlutabréfa Amaroq til viðskipta á Aðalmarkaði stendur nú yfir. Félagið hefur sent drög að lýsingu til Fjármálaeftirlits Seðlabankans (FME) og mun í framhaldinu leggja inn umsókn til Kauphallarinnar um töku hlutabréfanna til viðskipta á Aðalmarkaði. Ekki stendur til að gefa út nýtt hlutafé samhliða tilfærslunni.
Amaroq var stofnað árið 2017 með megináherslu á að finna gull og aðra verðmæta málma á Suður-Grænlandi, rannsaka og þróa þau svæði sem málma er að finna og vinna þessa málma úr jörðu. Félagið er með leitar- og vinnsluleyfi á svæði sem nær yfir tæplega 7.900 ferkílómetra á Suður-Grænlandi og nær það yfir tvö þekkt gullbelti á svæðinu.
„Tilfærsla Amaroq af First North yfir á Aðalmarkað mun styrkja stöðu félagsins, en frá því að félagið var skráð á First North á síðasta ári höfum við notið góðs af miklum áhuga frá íslenska markaðnum,“ segir Eldur Ólafsson, forstjóri og stofnandi Amaroq, í fyrrnefndri tilkynningu.