Eftir að 25 manns var sagt upp af 37 í upplýsingatæknifyrirtækinu Grid, eins og gerðist í ágústmánuði, gætu ýmsir talið að hugsanlega væru blikur á lofti í nýsköpunargeiranum á landinu. Það er þó ekki staðan að sögn Sigríðar Mogensen, sviðsstjóra iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins.
„Hugverkaiðnaðurinn á Íslandi blómstrar um þessar mundir og er í mikilli sókn og svona hópuppsögn er undantekning í þessari grein,“ segir Sigríður. „Við sjáum ekkert nema vöxt í kortunum í hugverkaiðnaði og tugir fyrirtækja eru í mikilli sókn,“ segir hún og bætir við að almennt sé mikill vöxtur í iðnaði og sérstaklega í hugverkaiðnaðinum og hafi verið undanfarin ár. „Umhverfi og starfsskilyrði nýsköpunarfyrirtækja hafa líklega aldrei verið betri en þau eru í dag.“
Mikill uppgangur í hugverkaiðnaði undanfarin ár hefur valdið því að mörg sprotafyrirtæki berjast nú um hituna og fjármögnun sem gæti útskýrt þessa hópuppsögn hjá Grid, en í heildina er mikill vöxtur.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.