Stöðugildum innan Kviku fækkaði um rúm fjögur prósent í dag ef tekið er mið af heildarstarfsmannafjölda fyrirtækisins, eftir að á annan tug starfsmanna var sagt upp.
Frá þessu er greint í umfjöllun Innherja.
Auk þess hefur bankinn ákveðið að ráða ekki i allar þær stöður sem hafa losnað innan samstæðunnar að undanförnu.
Í tölvupósti sem Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka, sendi starfsmönnum bankans í dag kemur fram að ákveðið hafi verið að ráða ekki í allar þær stöður sem hafa losnað innan samstæðunnar.
Í póstinum segist Ármann hafa nýtt tímann að undanförnu til að „kafa ofan í saumana á rekstrinum“ eins og hann orðar það, í þeim tilgangi að skoða hvar hægt sé að gera betur. Þá segir hann að hægt sé að breyta verklagi til að auka skilvirkni eða hagræða og draga úr kostnaði þar sem við á.
„Það síðastnefnda felur því miður óhjákvæmilega í sér fækkun stöðugilda á ýmsum sviðum samstæðunnar og í dag áttu sér stað nokkrar uppsagnir, sem mér þykir mjög leitt,“ segir Ármann í tölvupóstinum – og bætir því við að ákveðið hafi verið að ráða ekki í allar þær stöður sem hafa losnað að undanförnu. Þetta hafi í för með sér að stöðugildum innan samstæðunnar fækkar um 15.
Þá fjallar Ármann um breytingar á markaðsmálum með það að markmiði að efla markaðsstarf samstæðunnar enn frekar, breytingar á stjórnendateymi bankans í Bretlandi og loks breytingar á fyrirkomulagi og verklagi nefndarstarfs innan samstæðunnar með það að markmiði að bæta ákvarðanatöku, fækka tíðni funda og fækka þeim sem þurfi sitja fundi.
Ármann Þorvaldsson var sem kunnugt er ráðinn bankastjóri Kviku fyrir rúmum þremur vikum, eftir að Marinó Örn Tryggvason óskaði að eigin frumkvæði eftir því að láta af störfum. Ármann var áður forstjóri Kviku en gegndi starfi aðstoðarforstjóra á árunum 2019-2022, þegar hann fór til starfa hjá dótturfélagi Kviku í Bretlandi.
„Ég sé fjölmörg tækifæri til þess að efla Kviku áfram og það verður verkefni næstu missera að vinna úr þeim til hagsbóta fyrir hluthafa bankans,“ var haft eftir Ármanni í fréttatilkynningu sem Kvika sendi frá sér 20.ágúst.
„Mér er nýtt starf ekki alveg ókunnugt, en Kvika hefur mikið breyst frá því ég hélt um stjórnartaumana og ég er mjög spenntur að leiða þetta öfluga félag og það frábæra fólk sem þar starfar,“ sagði Ármann í tilkynningunni.
Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum úr tölvupósti Ármanns til starfsmanna.