Steinunn Kristín Þórðardóttir hefur tekið sæti í stjórn hugbúnaðarfyrirtækisins Öldu. Steinunn er stofnandi og stjórnarformaður Acton Capital AS og stjórnarformaður Norsk-íslenska viðskiptaráðsins.
Þetta kemur framí tilkynningu frá Öldu.
Þá situr Steinunn einnig í stjórn Arion banka og hefur starfað sem stjórnarmaður frá árinu 2017. Í stjórn Öldu sitja auk Steinunnar, Ásthildur Otharsdóttir stjórnarformaður og Jóhann Þorvaldur Bergþórsson.
Alda kynnti hugbúnaðarlausn sína nýverið og einblínir fyrirtækið fyrst á Evrópumarkað en fyrirhugað er að setja lausnina á markað í Bandaríkjunum á næsta ári. Lausninni er ætlað að vinna gegn eitraðri vinnustaðamenningu, tryggja inngildingu og hjálpa vinnustöðum að ná hámarks árangri með fjölbreyttum teymum. Í lausninni er boðið upp á mælaborð, örfræðslu í gegnum farsíma, markmiðasetningu og aðgerðaráætlanir sem eru sérsniðnar af gervigreind.
„Ég hlakka til að að taka þátt í vegferð Öldu enda metnaðarfullt og vaxandi fyrirtæki, leitt áfram af framúrskarandi fólki. Lausnin er einstök á heimsmælikvarða og er að mæta mikilli þörf á markaðinum sem stórfyrirtæki víða um heim hafa verið að kalla eftir,” er haft eftir Steinunni í tilkynningu.