Reginn hækkar tilboð sitt í Eik

Eik vill að hluthafar fyrirtækisins fái 50,6% hlut í Regin …
Eik vill að hluthafar fyrirtækisins fái 50,6% hlut í Regin á móti 49,4% hlutfalli hluthafa Regins. Kristinn Magnússon

Fasteignafélagið Reginn hefur breytt valfrjálsu yfirtökutilboði sínu í allt hlutafé Eikar fasteignafélags þannig að tilboðsverð fyrir hvern hlut í Eik hefur verið hækkað úr 0,452 hlutum í Regin í 0,489 hluti í félaginu. Það þýðir að taki allir hluthafar Eikar hinu breytta tilboði munu þeir fá í endurgjald að hámarki 48% útgefins hlutafjár í Regin í kjölfar viðskipta.

Þetta kemur fram í tilkynningu Regins til Kauphallar.

Þróun hlutabréfa

Þar segir einnig að við ákvörðun um hækkun tilboðsverðs samkvæmt hinu breytta tilboði hafi meðal annars verið höfð í huga sú þróun sem hefur orðið á gengi hlutabréfa í Regin og Eik frá því að fyrst var tilkynnt um áform Regins þann 8. júní sl. Í millitíðinni hafi Regin og Eik auk þess bæði birt uppgjör fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2023 og að sama skapi hafi félögin gert nánari grein fyrir horfum í rekstri.  „Með hliðsjón af dagslokagengi hlutabréfa í tilboðsgjafa og Eik þann 12. september síðastliðinn er miðað við að skiptihlutfallið samkvæmt hinu breytta tilboði sé þannig að hlutfall hluthafa Eikar sé 48% en hluthafa Regins 52%,“ segir í tilkynningunni.

Tilboð Regins gildir til 16. Október nk.

Stjórn Eikar fasteignafélags hf. sendi í gær frá sér opinbera greinargerð sína vegna tilboðsins en þar kemur fram rökstutt álit stjórnarinnar á tilboðinu og skilmálum þess. Í greinargerðinni er m.a. fjallað um álit stjórnarinnar á framtíðaráformum tilboðsgjafa og hvaða áhrif hún telur að tilboðið geti haft á hagsmuni félagsins, störf stjórnenda og starfsmanna þess, sem og staðsetningu starfsstöðva félagsins lögum samkvæmt.

Ekki vænlegt að samþykkja

„Að teknu tilliti til þeirra upplýsinga og greininga er fram koma í greinargerðinni er það mat stjórnar Eikar fasteignafélags að það sé ekki vænlegt fyrir hluthafa félagsins að samþykkja yfirtökutilboð Regins fyrst og fremst vegna þess að sá eignarhlutur sem hluthöfum Eikar fasteignafélags er boðinn í sameinuðu félagi, samkvæmt tilboðinu, er of lítill,“ segir í greinargerðinni.

Telur Eik að hluthafar fyrirtækisins eigi að að fá 50,6% hlut í Regin á móti 49,4% hlutfalli hluthafa Regins. Miðast matið við 6,2% fjármagnskostnað hjá báðum félögum.

Greinargerðin verður kynnt á hluthafafundi Eikar á morgun föstudag kl. 16:00.

Í greinargerðinni kemur einnig fram að allir stjórnarmenn Eikar sem einnig eiga hlut í félaginu hyggist hafna tilboði Regins.

Starfsfólk óttaslegið

Þá hefur starfsfólk Eikar skilað áliti sínu á yfirtökutilboðinu en í því segir að almennt telji starfsmenn að yfirtökutilboðið hafi slæm áhrif á starfsfólk félagsins. Margir upplifi ótta við að  missa starf sitt og annars konar óvissu, svo sem vegna tilfærslu starfsstöðvar og aukið álag eins og rætt er í greinargerðinni.  Þá segir að ljóst sé að fjöldi verkefna innan félagsins hafi tafist eða stöðvast vegna þess álags sem fylgt hafi yfirtökutilbðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK