Ekki birtar vegna viðskiptahagsmuna

Gylfi Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir að ekki hafi verið …
Gylfi Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir að ekki hafi verið rétt að birta fundargerðir fyrr en nú vegna viðskiptahagsmuna. mbl.is/Hari

Fundargerðir Orkuveitu Reykjavíkur hafa ekki verið birtar síðustu þrjá mánuði vegna umfjöllunar um sölu hlutafjár í Ljósleiðaranum. Þetta segir Gylfi Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.

„Það er ekki verið að brjóta neinar samþykktir eða reglur,“ segir Gylfi en hann geti upplýst borgarfulltrúa og aðra um að biðin sé á enda.

„Það er ekkert því til fyrirstöðu að birta þessar fundargerðir núna,“ segir hann og bætir við að þær muni birtast á allra næstu dögum.

Hentugra og eðlilegra að bíða með birtingu

„Þetta snerist um mál sem var afgreitt í gær, sölu hlutafjár í Ljósleiðaranum og það var hentugra og eðlilegra að birta ekki niðurstöður í því máli fyrr en það var komin endanleg niðurstaða og hún fékkst í gær. Þess vegna var nokkurra vikna bið á birtingu þessarar fundargerðar, það var ekkert annað sem skýrði það.“

Fundargerðir stjórnar Orkuveitur skulu vera opinberar og birtar á heimasíðu fyrirtækisins og þær sendar eigendum, sem er Reykjavíkurborg, samkvæmt 6. gr. sameignarsamnings Orkuveitu Reykjavíkur.

Hefði verið rétt í ljósi þessa prinsippa um að allir skuli vera upplýstir um málefni félagsins, að birta þetta jafnóðum?

„Það er auðvitað alltaf álitamál. Það getur þurft að bíða með birtingu þegar einhverjir viðskiptahagsmunir eða eitthvað álíka myndu skaðast af birtingunni. Það er auðvitað vaninn, eðlilegt og engin ástæða til annars að birta fundargerðir því sem næst þegar þær eru tilbúnar. Í þessu tilfelli var engin óskapleg bið, bara nokkrar vikur.“

Taldi ekki rétt að birta strax útfærsluna

Spurður hvaða viðskiptahagsmuni hafi verið fjallað um segir hann:

„Það var hvernig yrði staðið að þessari sölu á hlutafénu. Það var hins vegar búið að upplýsa um að það stæði til að afla fjár sölu hlutafjár. En þegar það var verið að útfæra nánar hvernig staðið yrði að sölunni var eðlilegt að segja ekki frá því fyrr en það var frágengið, sem var í gær.“

Tilkynnt var í gær að til standi að sækja rúma 3,2 milljarða króna í nýtt hlutafé með lokuðu útboði. Hlutafjáraukningin verður í höndum fyrirtækjaráðgjafar Arion banka en stefnt er að lokuðu útboði og langtímafjárfestum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK