Allir fundir enduðu með sölu

Teymið sem vinnur við þróun dala.care-hugbúnaðarins; Ása Rún Björnsdóttir, Gísli …
Teymið sem vinnur við þróun dala.care-hugbúnaðarins; Ása Rún Björnsdóttir, Gísli Hrafnkelsson, Finnur Pálmi Magnússon, Guillaume Meunier, Guðjón Geir Jónsson og Berglind Brá Jóhannsdóttir. mbl.is/Eyþór

Nýr hugbúnaður sem auðveldar umönnun aldraðra og sjúkra er kominn á markaðinn hér á landi. Forritið heitir dala.care og er þróað af hugbúnaðarfyrirtækinu Gangverki.

Finnur Pálmi Magnússon er vöruþróunarstjóri dala.care. Hann segir í samtali við Morgunblaðið að búnaðurinn sé byggður á grunni verkefnis sem unnið var fyrir bandaríska hjúkrunar- og þjónustufyrirtækið TheKey. „Við lærðum heilmikið af því að vinna fyrir TheKey. Því þótti okkur tilvalið að þróa vöruna sem sjálfstæða einingu sem hægt væri að bjóða víðar, þar á meðal hér á Íslandi.“

Hann segir að með því að kynna nú lausnina á Íslandi eftir velgengni ytra, sé Gangverk að fara öfuga leið við þá sem flestir hafa farið við þróun hugbúnaðar hér á landi, að þróa fyrst fyrir íslenskan markað og freista svo gæfunnar á erlendum markaði í kjölfarið.

156 skrifstofur

Eins og Finnur útskýrir er TheKey gríðarlega stórt fyrirtæki með 156 skrifstofur í flestum ríkjum Bandaríkjanna og í nokkrum löndum öðrum.

Dala.care er þriðja sjálfstæða varan sem orðið hefur til innan Gangverks, byggð á reynslu og samstarfi við erlenda aðila. „Við fórum djúpt í að leysa vandamál TheKey. Við smíðuðum í raun þrjú smáforrit. Eitt fyrir starfsfólk á skrifstofum, annað fyrir þá sem sinna þjónustu inni á heimilum fólks og þriðja fyrir fjölskyldur og tengiliði,“ útskýrir Finnur.

Út frá þeirri reynslu voru tvö ný forrit þróuð fyrir íslenskan markað sem fengu nöfnin office.dala.care og app.dala.care. Hið fyrra er að sögn Finns fyrir stjórnendur sem þurfa góða yfirsýn yfir heildarskipulag og einfalt viðmót til að greina áhættur og hnökra í rekstri. Hitt er snjallsímaviðmót fyrir starfsfólk, fjölskyldur og aðra aðstandendur skjólstæðinga sem þurfa að hafa samskipti og sameiginlega sýn á þjónustuna.

Finnur segir heimaþjónustu gríðarlega stórt úrlausnarefni. Þörfin á góðum sérhæfðum hugbúnaði sé mikil. „Hópur aldraðra sem þarf meiri stuðning og hjúkrun er alþjóðlegt vandamál og birtingarmyndin er sjúkrastofnanir sem anna engan veginn álaginu. Það er samróma álit sérfræðinga að lausnin liggi í að gera öldruðum kleift að búa sem lengst á eigin heimili og veita þjónustu sem stuðlar að meiri virkni, bættri heilsu og fleiri æviárum heima fyrir.“

Sinnum fyrsti viðskiptavinurinn

Í vikunni var gengið frá samningi við Sinnum heimaþjónustu sem þar með varð fyrsti viðskiptavinur dala.care hérlendis. Viðræður standa yfir við fleiri íslensk fyrirtæki. „Það styttist líka í að við opnun fyrir notkun fjölskyldna. Þær geta þá fengið sameiginlega yfirsýn yfir fjölskyldumeðlim sem þarfnast umönnunar. Fjölskyldur eru í raun stærsti hópurinn sem sinnir veikum og öldruðum í samfélaginu. Síðan taka heilbrigðisstofnanir alfarið við á einhverjum tímapunkti.“

Finnur segir að vel hafi gengið að selja dala.care í Bandaríkjunum. „Þrjú fyrirtæki notuðu búnaðinn til reynslu til að byrja með en síðan þá höfum við selt forritið til þriggja annarra félaga. Það segir sína sögu að allir kynningarfundir hafa hingað til endað með sölu. Menn eru fljótir að sjá notagildi búnaðarins.“

Lestu ítarlegri umfjöllun í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK