Undirbúa framkvæmdir við nýtt baðlón

Baðlónið verður við bakka Hvítár.
Baðlónið verður við bakka Hvítár. Tölvuteikning/Mannverk

Fyrirtækið Mannverk undirbýr nú framkvæmdir við baðlón sem rísa á við Laugarás í Bláskógabyggð. Lónið, sem hefur hlotið nafnið Árböðin, verður staðsett í miðju uppsveita Árnessýslu við bakka Hvítár.

„Við vorum svo heppnir árið 2015 að komast yfir einstaka lóð á þessum frábæra stað, sem býður upp á fjölda tækifæra í umhverfi sem er ríkt af fegurð, jarðvarma og metnaði fyrir ýmis konar ræktun sem og ferðaþjónustu,“ segir Hjalti Gylfason, framkvæmdastjóri Mannverks.

Framkvæmdir á næsta ári

Áætlað er að framkvæmdir við lónið hefjist í upphafi næsta árs. 

Segir Hjalti mikinn metnað fyrir því að Árböðin verði glæsileg og upplifun gesta góð. Sérstök áhersla var lögð á það við hönnun lónsins að um fjölbreytta upplifun gesta yrði að ræða. Lónið byði upp á margþætta upplifun, hvort sem það er í formi heitra eða kaldra baðsvæða, gufubaðs, slökunarrýma eða veitinga.

Að sögn Hjalta verður baðlónið hæðaskipt. „Lónið sjálft er hannað þannig að vatnið flæðir í gegn, svolítið eins og árfarvegur og ferðalag gesta í gegnum lónið endurspeglar þetta flæði.“ Til að ferðast milli efra og neðra lóns fer gesturinn niður í gegnum gat í vatnsfletinum og kemur út í gegnum lítinn foss inn í neðra lónið. „Það verður mikið sjónarspil að sjá fólk hverfa í gegnum vatnsflötinn og birtast í gegnum foss neðra lóns“.

T.ark sá um hönnun og Efla um verkfræðihönnun.
T.ark sá um hönnun og Efla um verkfræðihönnun. Tölvuteikning/Mannverk

Samið við reynslubolta

Mikið hefur verið lagt upp úr því í hönnunarferlinu að Árböðin falli vel inn í umhverfið, að sögn Hjalta, en eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er gert ráð fyrir að aðstaðan við lónið verði þakin gróðri. Þá verði byggingin ekki háreist og jarðlitirnir áberandi.

„Úr lóninu er óhindrað útsýni yfir sveitina og á Vörðufell en einnig á eina fallegustu brú landsins yfir Hvítá,“ segir Hjalti.

„Við fengum T.ark arkitekta til að sjá um arkitektúrinn og sömdum svo við Eflu verkfræðistofu um verkfræðihönnun. Báðir aðilar hafa víðtæka þekkingu og reynslu af sambærilegum verkefnum og er útkoman eftir því.“

Hráefni úr nærumhverfinu

Til viðbótar við lónið sjálft verður hvíldarrými útbúið stöðugri heitri rigningu og saunu með útsýnisglugga.

Þá er einnig gert ráð fyrir veitingastað með útisvæði sem hægt verður að halda alls kyns viðburði á, til að mynda tónleika, að sögn Hjalta.

„Laugarás er einstakur staður og ég tel Árböðin geta verið skemmtilega viðbót við þá upplifun sem í boði er á svæðinu. Þá sé ég einnig fjölda tækifæra til samstarfs við fyrirtæki á svæðinu sem eru til að mynda í matvælaframleiðslu. Okkar vonir standa til þess að sækja sem mest hráefni fyrir veitingastaðinn í nærumhverfi lónsins.“

„Laugarás er einstakur staður og ég tel Árböðin geta verið …
„Laugarás er einstakur staður og ég tel Árböðin geta verið skemmtilega viðbót við þá upplifun sem í boði er á svæðinu,“ segir Hjalti. Tölvuteikning/Mannverk
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK