Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Lucinity mun hefja samstarf við hugbúnaðarframleiðandann Microsoft.
Þetta tilkynntu Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og meðstofnandi Lucinity, og Sophia Wikander, framkvæmdastjóri á sviði fjármálafyrirtækja í Vestur-Evrópu hjá Microsoft, á Nordic Fintech Week í Kaupmannahöfn.
Í tilkynningu frá Lucinity segir að þetta sé upphafið að víðtæku samstarfi milli fyrirtækjanna sem bæði séu leiðandi á sínu sviði.
Lucinity er íslenskt fyrirtæki stofnaði árið 2018 sem nýtir gervigreind til greiningar fjármálagagna og í baráttunni gegn fjárglæpum. Meðal erlendra viðskiptavina Lucinity má nefna Goldman Sachs, Visa og norræna fjártæknifyrirtækið Pleo.
„Nýjasta afurð Lucinity, Luci – AI Copilot, byggir á skapandi gervigreind Microsoft Azure OpenAI og umbreytir því hvernig sérfræðingar í forvörnum fjárglæpa starfa. „Luci“ gerir flókin gögn aðgengileg í rauntíma, einfaldar greiningarvinnu sérfræðinga og dregur verulega úr þeim tíma sem fer í ákvarðanatöku. Útkoman er gríðarleg hagræðing, aukið samræmi í ákvörðunum og betri yfirsýn stjórnenda innan bankanna,“ segir í tilkynningunni.
Samstarfið mun einnig fela í sér lausnir Lucinity sem nú eru aðgengilegar á Microsoft Azure Marketplace og mun söluteymi Microsoft kynna lausnir Lucinity fyrir viðskiptavinum sínum um allan heim.
„Samstarfið við Microsoft opnar ótal möguleika og gefur okkur tækifæri til að ná til margfalt fleiri viðskiptavina og hjálpa þeim að berjast gegn fjárglæpum,“ er haft eftir Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra Lucinity.