Sér ekki fram á vaxtalækkun strax

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er ekki bjartsýnn á vaxtalækkanir …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er ekki bjartsýnn á vaxtalækkanir alveg strax. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir ekki margt benda til þess að það sé farið að myndast svigrúm fyrir vaxtalækkun, en í næstu viku er vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans.

Bankinn hefur nú hækkað vexti í fjórtán skipti og gæti gert það í fimmtánda skiptið í næstu viku. Bjarni segist einnig hugsi yfir því hvernig húsaleigan birtist í verðbólgutölum Hagstofunnar.

Bíður eftir endurskoðun á reiknaðri húsaleigu

„Það sem maður er orðinn mjög hugsi yfir er það hvernig reiknaða húsaleigan hefur áhrif á verðbólguna eins og hún mælist í dag. En okkur sýnist að rúmt prósent af þessari átta prósenta verðbólgumælingu leiði af reiknaðri húsaleigu sem að aftur endurspeglar vaxtahækkanir,“ segir Bjarni við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í dag.

Spurður nánar um þetta segir hann að vinna við að endurskoða húsnæðisliðinn hafi staðið yfir. „Það er að mínu áliti orðið mjög brýnt að við ljúkum þeirri endurskoðun. Þar sem mér sýnist sú aðferð sem notuð er í dag til að komast að niðurstöðu um hina reiknuðu húsaleigu sé að valda ákveðinni bjögun í verðbólgumælingu.“

Ekki komið svigrúm til vaxtalækkunar

Spurður út í væntingar hans til vaxtaákvörðunar Seðlabankans í næstu viku segir Bjarni að hann ætli ekki að fara að spá miklu um hvað gerist þá. „En það er ekki margt sem segir manni að það sé, miðað við það sem sagt hefur verið til þessa, að það sé komið svigrúm til að lækka vexti.“

Bjarni segir stóra verkefnið vera að finna rétta jafnvægið þar sem hæfilegum umsvifum í hagkerfinu sé haldið, en á sama tíma þurfi að dempa þá miklu spennu sem hafi verið í hagkerfinu.

„Jafnvægið felst í að dempa spennuna sem hefur verið án þess að valda á endanum ofkælingu.“

Trú á því að ná verðbólgunni niður

Hann segir að þegar séu farin að koma fram merki um að það sé að hægja á ýmsu í hagkerfinu og að verðbólguvæntingar út árið geri ráð fyrir að verðbólgan nái niður í 7% fyrir árslok.

„En það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að verðbólguvæntingar til lengri tíma eru alltof háar. Það er aðaláhyggjuefnið. En ég hef trú á því til skemmri tíma að við getum náð verðbólgunni niður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK