Félagið Arctic Green Energy, með rætur á Íslandi, vinnur að þróun átta verkefna í Póllandi.
Hvert verkefni snýst um uppbyggingu á varmaorkuverum þar sem jarðhiti er nýttur til húshitunar. Í heild er áætlað að varmaorkuvinnslugeta þessara verkefna í Póllandi verði um 240 megavött af varmaorku. Til samanburðar má geta þess að Nesjavallavirkjun er með um 250 megavatta varmaorkugetu.
Eiríkur Bragason, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, segir félagið vera með sex manns í Póllandi sem vinna að þróun verkefnanna. Hann segir þörfina fyrir hreina orku í Póllandi vera gríðarlega og að þessi verkefni geti vaxið mikið að umfangi síðar meir.
„Í þessum löndum er heppilegast að reisa mörg smá varmaorkuver, annað en hér heima þar sem þau eru fá og stærri. Í þessum verkefnum höfum við alla jafna notast við íslenskar verkfræðistofur þannig að það skiptir okkur miklu máli að Pólverjar komi hingað heim, eins og í dag, til að kynna sér notkun jarðhitans hér á landi,“ sagði Eiríkur í samtali við mbl.is í kjölfar kynningarfundar um möguleika á samstarfi í uppbyggingu hitaveitna og endurnýjanlegrar orku í Póllandi sem haldinn var á hótel Reykjavik Natura á þriðjudag.
Arctic Green Energy er jarðhitafélag sem hefur verið að byggja upp varmaorku- og raforkuver sem nýta jarðhitann. Félagið hefur hingað til aðallega unnið í Asíu þar sem það er með rúmlega 700 varmaorkuver í rekstri í félögum sem það á í um helmingshlut. Þar er um að ræða stærsta jarðhitarekstur í heimi um 6,5 gígavött í varmaorkugetu.
Fyrir þremur árum hóf félagið að þróa nokkur verkefni í mið Evrópu, meðal annars í Póllandi en í Póllandi búa um 40 milljón manns og þar eru um 500 dreifikerfi fyrir heitt vatn í rekstri sem öll eru knúin áfram með heitu vatni sem hitað er upp með kolum og gasi.
„Þessu vilja allir snarbreyta. Þar liggja ýmsar ástæður til grundvallar, til að mynda að minnka þannig mengun og að minnka innflutning á gasi frá öðrum löndum,“ segir Eiríkur. Langtímaverkefnið segir hann svo að halda húshitunarverðum stöðugum. Þess vegna sé mikill áhugi frá mörgum löndum að nýta jarðhitann.
„Við höfum verið að bjóða sveitarfélögum í samstarf við það að bora fyrir heitu vatni og tengja inn á þessi dreifikerfi. Við erum að fjárfesta í borun, byggjum upp þessi varmaorkuver og rekum þau áfram.“
Segir Eiríkur að fyrirtækið vinni að fjölda spennandi verkefna sem tengjast raforkuverum og varmaorkuverum, meðal annars í Ungverjalandi sem og verkefnum í Slóvakíu og Króatíu. Verkefnin í þessum löndum eru að svipaðri stærðargráðu. Hann segist ekki vita til þess að neinir aðrir aðilar séu að fjárfesta í slíkum mæli í jarðhitaverkefnum erlendis.
„Við erum meðal annars með samning við borgina Búdapest um að tengja þar inn á kerfi og hita það upp með hreinni orku. Framkvæmdir hefjast þar eftir nokkra mánuði.“
Umfangið segir Eiríkur svona um það bil fjórar Nesjavallavirkjanir í þessum Evrópulöndum þegar allt er talið. Segir hann að bæði í tengslum við verkefni Arctic Green Energy í Asíu og í Evrópu hafi verið treyst á íslensku verkfræðistofurnar. „Þannig að við erum að flytja út þekkingu í stórum stíl,“ segir Eiríkur.