Áætlað er að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna á mann hafi dregist saman um 5,2% á öðrum ársfjórðungi þessa árs borið saman við sama tímabil í fyrra.
Á árinu 2022 dróst kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna um 0,1% samanborið við árið 2021.
Aukin verðbólga skýrir minni kaupmátt ráðstöfunartekna á öðrum ársfjórðungi, að því er segir í tilkynningu frá Hagstofunni.
Áætlað er að ráðstöfunartekjur á mann hafi numið rúmlega 1,3 milljónum króna á ársfjórðungnum og hafi aukist um 3,8% frá sama tímabili í fyrra.
Að teknu tilliti til verðlagsþróunar dróst kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila á mann hins vegar saman um 5,2% á tímabilinu en vísitala neysluverðs hækkaði um 9,4% á sama tímabili.
Heildartekjur heimilanna jukust um tæplega 11,6% á öðrum ársfjórðungi 2023 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Sá liður sem vegur hvað þyngst í aukningu heildartekna eru launatekjur en þær jukust um tæp 12%.