Kvika banki vill selja TM

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn Kviku banka hefur tekið ákvörðun um að hefja undirbúning að sölu eða skráningu TM á markað.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kviku banka nú í kvöld, en ákvörðunin er sögð hluti af stefnumótunarvinnu bankans og hluti af framtíðarsýn Kviku þar sem lögð verði áhersla á að einfalda rekstur samstæðunnar og styrkja hefðbundna bankastarfsemi í samræmi við markmið bankans um að auka samkeppni og einfalda fjármál viðskiptavina.

Þá kemur fram að gert sé ráð fyrir að eftir sölu eða skráningu TM verði meginstarfsemi Kviku á sviði viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi auk eignastýringar. Einnig er búist við því að eiginfjárstaða Kviku styrkist verulega þegar af sölu eða skráningu TM verður, sem geri bankanum kleift að styðja við innri vaxtartækifæri hans á öllum sviðum. Enn fremur er stefnt að því að umtalsverður hluti söluandvirðis verði greiddur til hluthafa í formi arðgreiðslu og/eða endurkaupa á eigin bréfum.

Á næstu vikum mun bankinn ráða ráðgjafa og ákvarða næstu skref, en áætlanir gera ráð fyrir að sölu eða skráningu TM verði lokið á síðari hluta næsta árs.

„Með sölu eða skráningu á TM er ætlunin að Kvika geti sótt enn frekar fram og aukið markaðshlutdeild sína á öllum tekjusviðum bankans. Rekstur og skipulag bankans verður einfaldara, tekjumyndun stöðugri, arðsemi betri og framtíðarvaxtatækifæri meiri,“ segir Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK