Gourmet ehf. hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta en félagið hélt úti rekstri á veitingastaðnum Sjáland í Garðabæ. Því hefur veitingastaðnum verið lokað en þar átti fjöldi brúðkaupsveislna að fara fram næstu helgar.
Gourmet er í eigu Stefáns Magnússonar en húsnæðið í eigu einkahlutafélagsins Arnarvogs. Vísir greindi fyrst frá.
Símon Sigurður Sigurpálsson, einn af eigendum Arnarvogs, segir við mbl.is að það sé ekki víst hver tildrög gjaldþrotsins séu – annars vegar hafi honum verið sagt að það væri vegna skattaskuldar en hins vegar að Gildi lífeyrissjóður hafi farið fram á þrotaskiptin.
Nú hefur skiptastjóri tekið yfir húsnæðið tímabundið og því ekki víst hvenær eigendur fá húsnæðið aftur í sínar hendur.
Sjáland var nokkuð vinsæll staður til að halda brúðkaupsveislur og höfðu einhver tilvonandi hjón bókað veislusal Sjálands fyrir veislurnar sínar. Ekki er þó víst hvað verður um þau áform.
„Það er eitthvað fram undan í því en það er búið að redda því sem átti að vera nú um helgina. En við vitum náttúrulega ekki hvað verður um hin, því við höfum auðvitað enga stjórn á þessu.“
„Við þurfum auðvitað að finna nýja rekstraraðila að staðnum. Við erum svo sem farnir að leita eftir því,“ segir Símon.
„Þetta er leiðinlegt hvernig þetta fór allt saman og þetta var mjög leiðinlegt fyrir hann, allt þetta vesen sem búið er að vera,“ segir hann og bætir við að lokum að gjaldþrotið hafi átt sér langan aðdraganda.
Greint var frá því á mbl.is í fyrra að Arnarnesvogur vildi rifta leigusamningi við Gourmet. Héraðsdómur féllst á þá kröfu í júní, en í úrskurði Landsréttar kom fram að Arnarnesvogi hefði ekki verið heimilt að nýta samningsbundinn rétt sinn til að rifta samningnum.