Ísland hækkað áfengisskatta mest allra Evrópuríkja

mbl.is/Sigurður Bogi

Ísland hefur í fjárlögum þessa árs hækkað áfengisskatta mest allra Evrópuríkja sem hlutfall af verðbólgu.

Félag atvinnurekenda (FA) bendir á þetta í umsögn sinni um tekjubandorminn svokallaða. Ísland hafi því enn bætt Evrópumet sitt í skattlagningu á áfengi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá FA.

Andmælir frekari hækkun

Flaska af vinsælu gini og kassi af léttvíni eru líkleg til að hækka í verði um 200 krónur vegna þeirrar 3,5% hækkunar á áfengissköttum sem lögð er til í fjárlagafrumvarpinu samkvæmt útreikningum FA. Þá muni kippa af vinsælum bjór hækka um 60 krónur og flaska af algengu léttvíni um 50 krónur.

Félagið andmælir enn frekari hækkunum á hæstu áfengissköttum í hinum vestræna heimi, eins og segir í tilkynningunni.

Mynd/FA

Vilja að hætt verði við hækkun

Í umsögn FA er vísað í greiningu félagsins á hækkunum áfengisskatta í Evrópuríkjum í byrjun ársins. 7,7% hækkun á sköttunum hér á landi í gildandi fjárlögum var þá réttlætt með vísan til mikillar verðbólgu.

Í tilkynningu FA segir að í öllum Evrópuríkjum hafi sömuleiðis verið metverðbólga, víða meiri en á Íslandi. Engu að síður hafi 26 ríki af 36, sem FA skoðaði, haldið áfengissköttum óbreyttum. Af þeim tíu ríkjum sem hafi breytt sköttum um síðastliðin áramót hafi eingöngu Ísland hækkað þá um meira en sem nemur samræmdri vísitölu neysluverðs en yfirleitt hafi hækkunin aðeins verið brot af verðbólgunni.

„FA hefur áður bent á að allan rökstuðning skorti fyrir því fyrirkomulagi að áfengisskattur á hvern sentílítra vínanda í bjór sé 10% hærri en áfengisskattur á sambærilega einingu í léttvíni. FA leggur til að gerð verði sú breyting á frumvarpinu að hætt verði við hækkun áfengisskatts, að minnsta kosti á bjór þannig að skattlagning á léttvíni og bjór jafnist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK