Seðlabankinn ekki vanur að koma á óvart

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, á fundinum …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri kveðst ósammála því að það hafi oft komið fyrir að Seðlabankinn komi greiningardeildum bankanna á óvart með ákvörðunum sínum.

„Yfirleitt hefur það sem greiningardeildir hafa gefið út gengið eftir nokkurn veginn,” sagði Ásgeir á kynningarfundi vegna yfirlýsingar peningastefnunefndar um óbreytta stýrivexti, í svari við spurningu úr sal.

Bætti hann við að bankinn reyndi að gefa framsýna lausn eins og hægt væri. Bankinn gæti samt ekki látið hluti til skamms tíma feykja bankanum til í ákvörðunum sínum. Heildarsýn þyrfti að vera til staðar.

Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, benti á að greiningardeildirnar spáðu oft mismunandi hlutum. Hugsa þurfi út í tvennt við slíkar spár.

Annars vegar að fyrstu hagtölur Hagstofunnar séu áætlun sem yfirleitt séu endurskoðaðar og að spá Seðlabankans [þjóðhags- og verðbólguspá] sé ekki það sama og spá peningastefnunefndar bankans. Nefndin geti verið ósammála hlutum úr fyrrnefndu spánni. 

„Við viljum vera það skýr að þetta eigi ekki að koma á óvart,” sagði Rannveig.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundinum.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vill innistæðu fyrir launahækkunum

Ásgeir sagði það vera lykilatriði þegar kemur fram á næsta ár að framvinda verðbólgunnar velti að miklu leyti á kjarasamningum. Hvort Seðlabankinn hækki eða lækki vexti velti á því hvort vinnumarkaðurinn vinni með honum.

Seðlabankastjóri kvaðst ekki vilja launahækkanir sem ekki væri innistæða fyrir. Erfitt væri að byggja upp kaupmátt nema í verðstöðugleika.

Hann sagði vinnumarkaðinn vera mjög heitan og atvinnuleysi lítið, þrátt fyrir vísbendingar um að það sé tekið að hægja á efnahagslífinu. Þetta valdi bankanum áhyggjum enda séu kjarasamningar á mjög heitum markaði alltaf erfiðir. Fyrir vikið sé óvissa fram undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK