Námufyrirtækið Amaroq Minerals auðlindafélag, sem heldur á víðtækum rannsóknar- og vinnsluheimildum á stóru landsvæði á Suður-Grænlandi, hefur kynnt niðurstöður úr tilraunaborunum árið 2023 í Nalunaq.
„Niðurstöður tilraunaborana sumarsins skila hæsta gullmagni/gullstyrk úr Nalunaq í sögu Amaroq. Gullstyrkur upp á 182g/t Au [grömm í hverju tonni] yfir 0,69 metra mældist í sýnatöku úr meginæð Nalunaq, sem stækkar fyrsta vinnslusvæðið í efsta hluta námunnar í fjalllendinu (e. Mountain Block) þar sem fyrirhugað er að hefja námustarfsemi árið 2024,“ segir í tilkynningu.
„Þetta er hæsti gullstyrkur sem hefur fengist úr borunum í Nalunaq frá stofnun Amaroq Minerals árið 2017. Þessar niðurstöður auka þróunarmöguleika okkar til muna og staðfesta að gullsvæðið nær lengra og er víðfeðmara en áður var talið og núverandi áætlanir okkar um námugröft miðast við.
Borunaráætlunin á Mountain Block-svæðinu í ár, þar sem boranir fara fram á tveimur stöðum í mikilli hæð, er til marks um skilvirkt samstarf milli tæknifólks Amaroq og verktaka á vegum fyrirtækisins, sem gerir okkur kleift að ná metnaðarfullum markmiðum okkar innan tímarammans sem við settum okkur fyrir tímabilið. Þetta færir okkur enn nær innra markmiði okkar um að auka umsvif í nýtingu jarðefna við Nalunaq upp í 1 milljón troyesúnsa og jafnvel meira,“ segir Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq.
Þá kemur fram í tilkynningunni að uppgötvuð ný gullæð, sem er 75 metra fyrir ofan meginæðina þar sem gullstyrkur mælist hærri en nokkru sinni áður eða 256 g/t Au, auki til muna mögulegt vinnslusvæði í Nalunaq.