Hagfræðideild Landsbankans spáir því að tólf mánaða verðbólga muni lækka í októbermælingu og mælast 7,6%, en hún mældist 8% í september.
Spáir hagfræðideildin því að vísitala neysluverðs hækki um 0,36%, en á móti kemur að hækkunin var talsvert meiri á sama tíma í fyrra og leiðir það því til lækkunar tólf mánaða verðbólgu. Þeir liðir sem munu vega þyngst í hækkuninni að þessu sinni að mati greiningardeildarinnar eru reiknuð húsaleiga og verð á mat- og drykkjarvöru.
Vísitalan verður birt á vef Hagstofu Íslands 30. október.
Þá gerir greiningardeildin ráð fyrir að verðbólga verði stöðug út árið á bilinu 7,5% til 7,6% en lækki svo í 6,2% í janúar.