Þrír stjórnendur taka að sér ný hlutverk hjá Controlant en fyrirtækið er leiðandi í þróun á rauntíma vöktunarlausnum á sviði aðfangakeðju lyfja.
Erlingur Brynjúlfsson tekur að sér hlutverk framkvæmdastjóra stefnumótunar, Carsten Lützhøft framkvæmdastjóra vörusviðs, og Wade Munsie tekur að sér hlutverk framkvæmdastjóra tæknisviðs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Breytingarnar munu styðja við áframhaldandi þróun og vegferð félagsins með áherslu á framúrskarandi lausnir og þjónustu fyrir viðskiptavini og styrkja enn frekar leiðandi stöðu Controlant á sviði rauntíma vöktunarlausna fyrir alþjóðlega lyfjageirann, að því er fram kemur í tilkynningu.
Erlingur er einn stofnenda Controlant og hefur leitt þróun rauntíma vöktunarlausna félagsins allt frá upphafi. Hann hefur bæði verið framkvæmdastjóri vörusviðs og framkvæmdastjóri tæknisviðs fram að þessu.
Carsten tók við stöðu forstöðumanns viðskiptaþróunar félagsins í byrjun árs. Hann hefur víðtæka reynslu í bæði lyfja- og tæknigeiranum og hefur sinnt ýmsum stjórnendastöðum hjá danska lyfjarisanum Novo Nordisk.
Wade hefur reynslu úr bæði lyfja- og flutningageiranum. Hann var áður Global Data Officer hjá breska lyfjariskanum, GSK, og Chief Data Officer hjá breska póstinum, Royal Mail. Hann hlaut alþjóðlegu verðlaunin Global Data and Analytics Leader of the Year Award, bæði árið 2021 og 2022.
Haft er eftir Gísla Herjólfssyni, forstjóra og einum stofnenda Controlant, að staða félagins til þess að mæta flóknum og síbreytilegum kröfum viðskiptavina félagsins verði enn sterkari með þessum breytingum á framkvæmdastjórninni.
„Þrír reynslumiklir leiðtogar taka við nýjum hlutverkum sem snúa að þremur lykilsviðum félagsins: tækni, vörum og stefnumótun. Ég býð Erling, Carsten, og Wade velkomna í ný hlutverk.