Arctic Adventures hefur keypt allt hlutafé í Kerfélaginu af Óskari Magnússyni, Ásgeiri Bolla Kristinssyni, Sigurði Gísla Pálmasyni og Jóni Pálmasyni, en hver þeirra átti fjórðungshlut í félaginu. Helsta eign Kerfélagsins er Kerið í Grímsnesi sem hefur lengi verið vinsæll áningarstaður ferðamanna.
Í tilkynningu er haft eftir Óskari Magnússyni, sem er stjórnarformaður Kerfélagsins og hefur stjórnað rekstri þess frá upphafi, að þeir hafi nú átt Kerið í 23 ár og að komið sé að næsta kafla uppbyggingar á svæðinu. „Við töldum það heppilegan tíma til að láta staðar numið svo nýir eigendur geti byggt upp til frambúðar eftir sínum hugmyndum. Arctic Adventures er traust og burðugt félag sem mun án efa standa myndarlega að framhaldinu við Kerið. Við fjórmenningarnir höfum á þessum tímamótum ákveðið að stofna sérstakan sjóð sem styrkja mun sjálfbæra náttúruvernd í þeim anda sem reynst hefur farsæl við uppbyggingu Kersins.“
„Kerið er með merkilegustu náttúruperlum landsins. Við teljum að góðir möguleikar séu til staðar til frekari uppbyggingar við svæðið og jafnframt áframhaldandi náttúruverndar. Kerið er í alfaraleið og aðgengilegt til lengri eða skemmri skoðunarferða. Við fögnum því að hafa náð samningum um þessi kaup og hyggjumst vanda þar til uppbyggingar. Arctic Adventures á allt undir þegar kemur að náttúruvernd og því skiptir góð umgengni um náttúruna okkur gríðarlega miklu máli,“ er haft eftir Ásgeiri Baldurs forstjóra Arctic Adventures.
Arctic Adventures kemur nú þegar að rekstri nokkurra ferðamannastaða eins og Raufarhólshelli og ísgöngunum í Langjökli.