Kínverski efnaframleiðandinn Jiangsu Sailboat Petrochemical, JSP, dótturfyrirtæki Shenghong Petrochemicals, eins stærsta fyrirtækis í Jiangsu-héraði á austurströnd Kína, hefur gangsett metanólverksmiðju sem knúin er með tækni frá íslenska hátæknifyrirtækinu Carbon Recycling International (CRI).
Verksmiðjan er að sögn Bjarkar Kristjánsdóttur, forstjóra CRI, ein sú skilvirkasta í heimi. Björk segir að árlega geti verksmiðjan endurnýtt 150.000 tonn af koltvísýringi úr rekstri JSP.
Framleiðslutæknin er byggð á íslensku hugviti og hefur verið sannreynd og prófuð í verksmiðju CRI í Svartsengi síðan árið 2012 að sögn Bjarkar.
Hún segir að verksmiðjan sé sú önnur talsins utan Íslands sem notfærir sér tækni CRI. „Eftir að hafa þróað tæknina hér heima fórum við í útflutning árið 2020 og gangsettum fyrstu verksmiðjuna í Kína árið 2022 fyrir verksmiðjueigandann Shunli. Nú hefur önnur verksmiðja bæst við,“ segir Björk.
Hlutverk CRI í ferlinu er að veita leyfi fyrir notkun tækninnar og afhenda búnað. „Við látum þeim í té verkfræðihönnun, leyfi, hvarfakút og efnahvata. Undir lok verkefnisins mætir teymi frá okkur á staðinn til að þjálfa rekstraraðila og styðja við gangsetninguna.“
Ítarlegra viðtal er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í gær, 19. október.