„Þetta er galið“

Forstjóra Play þykir galið að ríkisstarfsmenn komist upp með að …
Forstjóra Play þykir galið að ríkisstarfsmenn komist upp með að nýta fé ríkisins í eigin þágu. Samsett mynd

„Þetta er galið, að einhver geti ákveðið að kaupa vöru eða þjónustu fyrir hönd ríkisins með persónulega hagsmuni sína í huga,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við færslu Söru Lindar Guðbergsdóttur, forstjóra Ríkiskaupa, á LinkedIn í dag.

Í færslu sinni segir Sara Lind persónulegan ávinning ekki mega hafa áhrif á kaup rík­is­starfs­manna á flug­miðum. Tilefni færslu Söru Lindar er umfjöllun mbl.is um flugmiðakaup Alþingis. 

Alþingi keypti á síðasta ári flug­miða af Icelanda­ir fyr­ir 20,9 millj­ón­ir króna en ein­ung­is fyr­ir 500 þúsund krón­ur af Play. Icelanda­ir býður viðskipta­vin­um sín­um upp á að safna vild­arpunkt­um þegar ferðir eru bókaðar með flug­fé­lag­inu. Play býður ekki upp á sömu þjón­ustu.

Ríkisstarfsmenn virðast almennt hrifnari af því að kaupa sér flug …
Ríkisstarfsmenn virðast almennt hrifnari af því að kaupa sér flug með Icelandair en Play. mbl.is/Sigurður Bogi

Hljóð og mynd fari ekki saman

Birgir, sem er forstjóri helsta keppinautar Icelandair, segist ekki vera að tjá sig um flugmiðakaup ríkisstarfsmanna sem forstjóri Play, heldur sem almennur skattgreiðandi sem vill að stjórnvöld fari vel með féð.

Þá bendir Birgir á að það geti varla samræmst loftlagsmarkmiðum stjórnvalda að ríkisstarfsmenn kaupi sér farmiða á Saga Class, sem að hans sögn er algengt, þar sem útblástur fyrir hvert sæti er mikið hærri en fyrir sæti í almennu farrými. Sömuleiðis telur Birgir kaup á flugmiðum í Saga Class ekki sýna ráðdeild í ríkisrekstri. 

„Þú átt ekki að labba inn á Saga Class eða inn í flugvélar og sjá ríkisstarfsmenn í dýrustu sætunum. Það passar ekki við skilaboðin sem ríkisstjórnin og fjármálaráðherra hafa verið að senda, um að það þurfi að draga saman vegna verðbólgu. Það fer ekki saman hljóð og mynd,“ segir Birgir.

Punktarnir fari til ríkisins

Birgir segir að eðlilegast væri ef ríkið fengi þá vildarpunkta sem fylgja með hverjum flugmiða ríkisstarfsmanns.

„Mér fyndist eðlilegt, ef að Icelandair er að bjóða þessi punktakjör, að ríkið fái punktana til að geta notað þá til að kaupa fleiri flugsæti á betri kjörum, frekar en að ríkisstarfsmenn geti verið að fara frítt til Köben fyrir jólin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK