Erlendir aðilar hafa á liðnum dögum og vikum þreifað fyrir sér um fjárfestingu í Marel með það fyrir augum að eignast meirihluta í félaginu - eða félagið í heild sinni.
Þetta herma heimildir Morgunblaðsins.
Samkvæmt heimildum blaðsins hafa stjórnendur Marel sett sig í stellingar til að bregðast við fyrirhugaðri yfirtöku á félaginu og hafa ráðgjafar frá bandaríska fjárfestingabankanum JP Morgan verið stjórnendum félagsins innan handar vegna þessa.
Morgunblaðið sendi fyrirspurn á Arnar Þór Másson, stjórnarformann Marels, þar sem fram kom að blaðið hefði heimildir fyrir því að Marel hefði að undanförnu haft á sínum snærum ráðgjafa frá JP Morgan í sérstökum verkefnum. Þá var einnig spurt um það hvort að erlendir aðilar hefðu nálgast forsvarsmenn Marels með það fyrir augum að fjárfesta í félaginu eða taka það yfir.
„Marel tjáir sig ekki um getgátur eða orðróm á markaði,“ segir Arnar Þór í skriflegu svari til blaðsins og bætir við; „Við vinnum reglulega með ýmsum ráðgjöfum í fjölbreyttum verkefnum. Líkt og önnur alþjóðleg félög með skráð hlutabréf leggjum við áherslu á að vera ávallt vel undirbúin og með bestu ráðgjöf fyrir aðstæður sem upp geta komið á hverjum tíma.“
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel og einn stærsti hluthafi fyrirtækisins, vísaði í svör stjórnarformannsins þegar hann var spurður um sömu atriði.
Marel, sem snemma á þessu ári fagnaði 40 ára afmæli, hefur verið nokkuð til umfjöllunar þar sem gengi bréfa í félaginu hefur lækkað nokkuð frá því snemma í fyrra. Gengi bréfa í félaginu hefur lækkað um 4% það sem af er degi í dag (þegar þetta er skrifað). Þá hefur gengið lækkað um tæp 28% það sem af er þessu ári en um tæp 60% frá því í byrjun árs 2022. Hæst fór gengi bréfa í félaginu í september 2021, í 968 kr. á hlut, en hefur síðan þá lækkað um 64% og er nú 355 kr. á hlut. Markaðsvirði félagsins hefur þannig rýrnað um tæplega 490 milljarða króna á tímabilinu.
Viðmælendur Morgunblaðsins sem þekkja til stöðu Marels telja að vegna mikillar lækkunar á gengi bréfa í félaginu kunni að skapast skilyrði fyrir yfirtöku utanaðkomandi aðila. Þær hugmyndir eru ekki úr lausu lofti gripnar, því Árni Oddur sagði í viðtali við Dagmál Morgunblaðsins undir lok maí sl. að svo gæti vel farið að Marel yrði einn daginn „hluti af stærri heild“, eins og hann komst að orði. Þar var vísað til þess að Marel hefur á undanförnum árum tekið yfir fjölda annarra fyrirtækja en þó væru til mun stærri fyrirtæki sem sérhæfa sig í tækjum fyrir matvælaframleiðslu.
Þess má geta að bandarísku fjárfestasjóðirnir The Baupost Group og JNE Partners veittu Eyri Invest, stærsta hluthafa Marels, um 26 milljarða króna fjármögnun undir lok síðasta árs. Í fyrrnefndu viðtali sagði Árni Oddur að Baupost Group og JNE Partners hafi í raun keypt 8% hlut í Marel þegar þeir tryggðu Eyri Invest fyrrnefnda fjármögnun. Áætlað var að þau kaup myndu raungerast á fjórum árum, en við það ætti eignarhlutur Eyris í Marel að fara úr 25% í 17%.
Ljóst er að Eyrir Invest, sem er sem fyrr segir stærsti hluthafinn í Marel, hefur nokkuð um það að segja hvort og þá hvernig erlend yfirtaka færi fram. Þeir erlendu aðilar sem sýnt hafa Marel áhuga að undanförnu gætu gert valfrjálst yfirtökutilboð í félagið og látið öðrum hluthöfum eftir að meta kosti þess og galla. Nýlegt dæmi um slíkt tilboð er yfirtaka sjóðs í eigu Alfa framtaks í alla hluti Origo í fyrra, sem endaði með yfirtöku og afskráningu af markaði. Þar er um að ræða mun minna félag en aðferðarfræðin er sú sama.
Annar möguleiki væri að kaupa eignarhlut Eyris Invest í Marel og bæta við hlut einhvers af stærri hluthöfum í félaginu. Lífeyrissjóður verslunarmanna, lífeyrissjóðurinn Gildi og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) eiga hver um sig yfir 5% hlut í félaginu. Með kaupum á hlut Eyris og einhvers lífeyrissjóðsins gæti myndast yfirtökuskylda í félaginu.
Enn annar möguleiki væri að kaupa bréf sem eru í eigu annarra hluthafa en Eyris og skilja stærsta hluthafann þannig eftir einangraðan. Sú leið verður að teljast ólíkleg og í raun illfær, þar sem hún myndi taka langan tíma og lítið sem ekkert liggur fyrir um afstöðu hluthafa til slíks tilboðs.
Marel mun skila uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun markaða í dag. Óhætt er að segja að síðustu uppgjör félagsins hafi valdið vonbrigðum á markaði, sem aftur endurspegast í fyrrnefndri lækkun á hlutabréfum félagsins. Þá lækkaði Marel afkomuspá sína eftir birtingu uppgjörs fyrir annan ársfjórðung, þar sem fallið var frá markmiði félagsins um að ná 14-16 prósenta framlegðarhlutfalli í lok þessa árs. Markmið félagsins felst nú í því að ná 12 -14 prósenta hluthfalli á árinu.