Landsbankinn hagnast um 7,9 milljarða

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagnaður Landsbankans á þriðja ársfjórðungi 2023 var 7,9 milljarðar króna samanborið við 5,8 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 10,9%.  Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu bankans sem birt er á heimasíðu hans.

Sé horft til fyrstu níu mánaða ársins var hagnaður bankans 22,4 milljarðar króna. Arðsemi eiginfjár á sama tímabili var 10,5%.

Eignir Landsbankans námu í lok þriðja ársfjórðungs 1.982 milljörðum króna en í lok síðasta árs voru eignirnar 1.787 milljarðar.

Eigið fé Landsbankans nemur nú 293 milljörðum króna en það var 279 milljarðar í lok síðasta árs.

Eiginfjárhlutfall bankans er 23,7%.

Hreinar vaxtatekjur 15,2 ma.kr.

Í tilkynningunni segir að hreinar vaxtatekjur á ársfjórðungnum hafi verið 15,2 milljarðar króna en þær námu 12,2 milljörðum króna á sama tímabili í fyrra.

Virðisbreyting útlána og krafna var neikvæð um 248 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs samanborið við jákvæða virðisbreytingu upp á 2,6 milljarða króna á sama fjórðungi árið 2022.

Hreinar þjónustutekjur á þriðja ársfjórðungi námu 2,3 milljörðum króna en voru 2,5 milljarðar króna á sama tíma á síðasta ári.

Í tilkynningunni kemur fram að útlán hafi aukist um 55,5 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2023. Útlán til einstaklinga jukust um 19,5 milljarða króna og útlán til fyrirtækja um 47 milljarða króna en á móti kemur 11 milljarða króna lækkun vegna gengisáhrifa. Nettóaukning fyrirtækjalána sé því 36 milljarðar króna.

Innlán viðskiptavina námu 1.065 milljörðum króna í lok september 2023, samanborið við 968 milljarða króna í lok árs 2022.

Góð niðurstaða

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir í tilkynningunni að rekstrarniðurstaðan fyrir fyrstu níu mánuði ársins sé góð og til marks um góðan árangur og stöðugleika í rekstri bankans. Arðsemi bankans á árinu sé í samræmi við langtímamarkmið um að skila yfir 10% arðsemi á eigið fé en hafa beri í huga að eigið fé bankans er töluvert umfram lágmarkskröfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK