Guðni Rafn Gunnarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Gallup á Íslandi en hann var ráðinn úr hópi fjölda umsækjenda.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu en Guðni Rafn er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur starfað um árabil hjá Gallup, síðast sem sviðsstjóri yfir fjölmiðlarannsóknum og markaðsgreiningu. Hann hefur haldið utan um samskipti við erlenda samstarfsaðila og einnig starfað sem viðskipta- og verkefnastjóri á ýmsum sviðum Gallup. Guðni sat í framkvæmdastjórn Já hf. frá árinu 2015 og hefur einnig setið í stjórn Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga.
Gallup var nýlega keypt af félaginu Hamarshyl ehf. og vilja nýir eigendur efla fyrirtækið sem sjálfstætt rannsóknafyrirtæki sem sér almenningi, stofnunum og fyrirtækjum fyrir áreiðanlegum og traustum upplýsingum um stöðu og þróun íslensks samfélags.