Tölvuleikjafyrirtækið CCP fær hæstu upphæðina í sérstakan skattafrádrátt vegna nýsköpunar á þessu ári, eða samtals 500 milljónir í gegnum félögin CCP ehf. og CCP Platform ehf. Hvort félag um sig fékk 250 milljónir.
Þetta er meðal þess sem má lesa úr nýjum tölum sem Skatturinn birti nýverið um skattafrádráttinn.
Nox Medical, EpiEndo Pharmaceuticals, Landeldi og Sidekick Health fengu næst hæstu upphæðina, eða 350 milljónir hvert um sig. Coripharma fær þremur milljónum króna minna, eða 347 milljónir króna.
CCP skiptir starfsemi sinni í tvö félög og fær 250 í gegnum hvort þeirra, CCP ehf. fyrir útgáfu tölvuleikja og CCP platform vegna hugbúnaðargerðar.
Controlant fékk stærstu einstöku upphæðina á síðasta ári, alls 385 milljónir, en í ár fékk fyrirtækið 250 milljónir.
Mismunandi er hversu mikill skattafrádrátturinn getur verið eftir stærð fyrirtækja, en hann nemur á þessu ári 35% í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en 25% í tilviki stórra fyrirtæka. Þau síðastnefndu eru fyrirtæki með yfir 250 starfsmenn.
Hámarks skattafrádráttur fyrir árið 2022 getur orðið 350 milljónir hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, en 250 milljónir hjá stórum fyrirtækjum.
Skatturinn birtir lista yfir fjárhæð skattafrádráttarins hjá fyrirtækjum sem fá sem nemur yfir 500 þúsund evrur á ári, eða um 75 milljónir.