Síminn sektaður um 76,5 milljónir króna

mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands hefur tekið ákvörðun um að sekta Símann um 76,5 milljónir króna.

Ákvörðunin er tekin á grundvelli þess að stofnunin taldi að Síminn hefði ekki birt ætlaðar innherjaupplýsingar eða tekið ákvörðun um frestun á birtingu á ætluðum innherjaupplýsingum þann 31. ágúst 2021, í tengslum við mögulega sölu á Mílu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum til Kauphallarinnar. Þar segir að Síminn hafi upplýst markaðinn opinberlega að eigendabreyting á Mílu kæmi til greina auk þess sem upplýst var um að félagið myndi ræða við valda aðila.

„Hefði fjárfestum mátt vera ljóst að það væri mögulegt að Míla yrði síðar seld. Síminn er eðlilega ósammála stofnuninni að á þeim tíma hafi verið til staðar innherjaupplýsingar og telur að fjárfestum hafi verið haldið upplýstum um ferlið með fullnægjandi hætti, m.a. með opinberri tilkynningu til kauphallar þann 31. ágúst 2021,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að Síminn hafi litið svo á að engum innherjaupplýsingum hafi verið til að dreifa þann 31. ágúst 2021, enda hafi engin bindandi tilboð borist í félagið á þeim tíma. Því hafi félagið ekki getað tekið afstöðu til frestunar upplýsinganna.

Einnig kemur fram að Síminn muni ekki sætta sig við niðurstöðuna og sektina og skjóta málinu til dómstóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK