Fjarskiptafélagið Sýn, sem rekur m.a. Bylgjuna, Stöð 2, Vísi og Vodafone á Íslandi, hefur nú sett á laggirnar nýja sjálfstæða rekstrareiningu innan félagsins sem nefnist Vefmiðlar og útvarp. Innan nýju rekstrareiningarinnar verða allar fjölmiðlaeiningar Sýnar utan Stöðvar 2.
Stöð 2 verður þá sjálfstæð rekstrareining með áherslu á áskriftartekjur og innlenda dagskrárgerð. Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar mun starfa þvert á þessar einingar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjarskiptafélaginu en þar er haft á eftir Páli Ásgrímssyni, forstjóra Sýnar, að Vilborg Helga Harðardóttir muni stýra rekstri vefmiðla, en hún hefur verið forstjóri Já hf. síðan 2019. Eva Georgs Ásudóttir mun stýra rekstri Stöðvar 2, en hún hefur starfað sem framleiðslustjóri Stöðvar 2 frá árinu 2015.
Erla Björg Gunnarsdóttir stýrir áfram fréttastofu Vísis, Stöðvar 2, og Bylgjunnar.
Árshlutareikningur Sýnar fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2023 var samþykktur á stjórnarfundi þann 8. nóvember 2023. Rekstrarhagnaður Sýnar nam 1.594 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 og jókst um 32% á milli ára. Rekstrarhagnaður á þriðja ársfjórðungi var 592 milljónir króna, samanborið við 486 milljónum á fyrra ári.
Gengið var kaupum Sýnar á Já.is í byrjun október en þá falla Já.is, Bland.is, Tal og tengd vörumerki undir vefmiðla og útvarp. Gert er ráð fyrir að árlegar tekjur hinnar nýju rekstrareiningar nemi um þremur milljörðum og að samþætting Já og tengdra eininga við vefmiðla og útvarpstöðvar Sýnar styrki vöruframboð og auki auglýsingapláss á vefmiðlum.
Hagnaður eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins nam 804 m.kr. samanborið við 454 m.kr. á sama tímabili árið 2022.
Kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar voru samþykkt af Samkeppniseftirlitinu og fór afhending fram 4. október. Fyrsta kaupsamningsgreiðslan barst samdægurs. Umsamið kaupverð er 3.000 m.kr. og verður áætlaður söluhagnaður upp á rúmlega 2.400 m.kr. bókfærður að fullu á fjórða ársfjórðungi 2023. Regluleg endurkaup eigin bréfa var ákveðin að hámarki 300 m.kr.
Afkomuspá vegna ársins 2023 er óbreytt, þ.e. að rekstrarhagnaðar nemi um 2.200 milljónum króna til 2.500 milljóna króna undir lok árs.