Styrkás kaupir Stólpa gáma og tengd félög

Styrkás hefur undirritað samkomulag um kaup á öllu hlutafé í …
Styrkás hefur undirritað samkomulag um kaup á öllu hlutafé í Stólpa gámum ehf. og tengdum félögum. Ljósmynd/Stólpi gámar

Styrkás ehf., félag sem er í 69,64% eigu Skeljar fjárfestingafélags hf. hefur undirritað samkomulag um kaup á öllu hlutafé í Stólpa gámum ehf. og tengdum félögum af móðurfélaginu Máttarstólpa. Samkomulagið er með fyrirvara um að aðilar nái saman um endanlegan kaupsamning, fjármögnun, áreiðanleikakönnun og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Félögin sem um ræðir eru Stólpi gámar ehf., Stólpi smiðja ehf., Klettaskjól ehf., Stólpi ehf., Tjónaþjónustan ehf. og Alkul ehf. Undir hatti Styrkás eru í dag rekstur Kletts og Skeljungs.

Heildarvirði félaganna 3,5 milljarðar

Heildarvirði félaganna er í samkomulaginu metið á 3,55 milljarða, en að frádregnum áætluðum yfirteknum skuldum nemur kaupverð eigin fjár 2,97 milljörðum.

Gert er ráð fyrir að við afhendingu félaganna verði 55% kaupverðs greitt með reiðufé og 45% með seljendaláni og nýjum hlutum í Styrkási.

„Nú er komið að því að aðrir taki við keflinu

Í tilkynningu til Kauphallarinnar vegna viðskiptanna er haft eftir Ásgeiri Þorlákssyni, stjórnarformanni og eiganda Máttarstólpa, að félagið hafi hafið starfsemi sína 1974, en hann hafi tekið við sem aðaleigandi og framkvæmdastjóri af föður sínum árið 1999. Síðan þá hafi fleiri félög bæst við samstæðuna. „Nú er komið að því að aðrir taki við keflinu og leiði áframhaldandi uppbyggingu félagsins,” er haft eftir honum. Þá segist hann ætla að vera áfram þátttakandi í vegferð félagsins sem hluthafi í Styrkási.

Haft er eftir Ásmundi Tryggvasyni, forstjóra Styrkás, að með kaupunum sé stígið mikilvægt skref í að útvíkka þjónustu Styrkáss og byggja upp þriðja kjarnann í rekstri félagsins. Vísar hann til þess að Stólpi gámar séu leiðandi í gáma- og húseiningalausnum fyrir atvinnulífið og einstaklinga og einnig í gámaviðgerðum og tjónaþjónustu fyrir tryggingafélög.

Ætla að skrá Styrkás á markað fyrir lok árs 2027

Stærsti eigandi Styrkás á móti Skel er Horn IV slhf., framtakssjóðs í stýringu Landsbréfa, en Horn er með 29,54% hlut á móti 69,64% hlut Skeljar. Segir í tilkynningunni að Styrkás hafi markað sér stefnu um að byggja ofan á stoði samstæðunnar með innri og ytri vexti á fimm kjarnasviðum; orku og efnavöru, tækjum og búnaði, umhverfi, iðnaði og eignaumsýslu.

Markmið hluthafa Styrkáss er að skrá alla hluti í félaginu á skipulegan markað í Kauphöll Íslands fyrir árslok 2027.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK