Geymsluhólf Landsbankans, sem voru í útibúinu í Grindavík, voru seinnipartinn í gær flutt í útibú bankans í Mjódd í Reykjavík.
Í útibúinu í Grindavík voru um 150 geymsluhólf. Þau verða aðgengileg fyrir viðskiptavini frá og með morgundeginum, 17. nóvember.
„Útibú Landsbankans er innan skilgreinds hættusvæðis í Grindavík. Við höfðum áður gert ráð fyrir að geta flutt þau úr útibúinu þann 14. nóvember en af því varð ekki vegna breytinga á hættumati. Hratt og örugglega gekk að fjarlægja geymsluhólfin og flytja þau til Reykjavíkur seint í gær. Rétt er að taka fram að hólfin eru óskemmd og í engu tilfelli þurfti að opna þau vegna flutninganna.
Við mælum með að viðskiptavinir panti tíma til að vitja um geymsluhólfin. Það er einfalt að panta tíma hér á vefnum,“ segir í tilkynningu frá bankanum.