Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,37% milli mánaða í nóvember og að ársverðbólga aukist úr 7,9% í 8,0%.
Þeir liðir sem vega þyngst til hækkunar á vísitölunni eru reiknuð húsaleiga og verð á mat og drykkjarvöru, en flugfargjöld til útlanda vega þyngst til lækkunar. Við gerum ráð fyrir að verðbólga aukist svo lítillega í desember, í 8,1%, en hjaðni eftir áramót og verði 7,3% í janúar og 6,7% í febrúar, að því er segir í Hagsjá bankans.
„Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,37% milli mánaða í nóvember. Gangi spáin eftir eykst verðbólga úr 7,9% og í 8,0%. Reiknuð húsaleiga, þ.e. kostnaður við að búa í eigin húsnæði, hækkar um 1,3% samkvæmt spánni og vegur mest til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Verð á mat og drykkjarvörum hækkar einnig en verð á bensíni og flugfargjöldum til útlanda lækkar á milli mánaða,“ segir jafnframt.
Þá kemur fram að síðustu tvo mánuði hafi vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis hækkað og hafi hækkunin í síðasta mánuði verið um 1,5% sem sé nokkuð rífleg hækkun á flesta mælikvarða.
„Nokkrar ástæður geta verið fyrir hækkunum. Kaupsamningum hefur fækkað og þannig geta sveiflur í vísitölumælingum aukist. Eins og við höfum fjallað um teljum við að nýleg fjölgun hlutdeildarlána hafi mögulega haft áhrif til hækkunar á íbúðaverðsvísitölum. Hlutdeildarlánin ýta undir sölu á nýjum íbúðum, sem eru að jafnaði dýrari en eldri íbúðir af sömu stærð. Á næstu mánuðum ætti þó að koma betur í ljós hvort og hversu mikil áhrif úrræðið hefur á vísitölu íbúðaverðs.
Við gerum nú ráð fyrir að vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis, eins og Hagstofan reiknar hana, hækki um 0,6% milli mánaða. Vextir á verðtryggðum íbúðalánum voru hækkaðir hjá mörgum lánveitendum íbúðalána fyrr í mánuðinum og við gerum ráð fyrir að áhrif vaxtahlutans hækki og verði 0,7% í nóvember,“ segir enn fremur.