Bandaríska fyrirtækið John Bean Technologies Corporation er félagið sem stendur á bak við óskuldbindandi viljayfirlýsingu um mögulegt tilboð í allt hlutafé í Marel. Í viljayfirlýsingunni er fyrirhugað verð 3,15 evrur á hlut, en það er um 482 krónur miðað við skiptigengi upp á 153,3 krónur á evru.
Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá Marel til Kauphallarinnar nú á ellefta tímanum.
Þá er tekið fram að verðmatið byggi á þeirri forsendu að útistandandi hlutir í Marel séu 754 milljónir og staða áhvílandi lána nemi 827 milljónum evra. Í dag er heildarfjöldi bréfa í Marel 771.007.916, en miðað við 754 milljónir hluta er verðmat JBT 363,4 milljarðar króna.
JBT er skráð félag á hlutabréfamarkaðinum í New York og er líkt og Marel sérhæft í framleiðslu matvælaframleiðslutækja. Höfuðstöðvar þess eru í Chicago í Bandaríkjunum.
Í nótt greindi Marel frá viljayfirlýsingunni, en auk þess hefur Eyrir Invest hf., stærsti einstaki eigandi Marels, gefið út óafurkallanlega yfirlýsingu um að félagið muni samþykkja sölu á verði lagt fram tilboð í tengslum við viljayfirlýsinguna. Eyrir á í dag 24,7% hlut í Marel.
Í nýju tilkynningunni frá Marel eru einnig listaðir upp fyrirvarar við óskuldbinandi viljayfirlýsinguna. Er tekið fram að valfrjáls yfirtökutilboð verði aðeins sent að undangenginni ásættanlegri niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og stjórnarsamþykki JBT. Þá kemur fram að mögulegt valfrjálst yfirtökutilboð JBT, þegar og ef það verður lagt fram, verði háð eftirfarandi fyrirvörum:
Óskuldbindandi viljayfirlýsingin gerir ráð fyrir að 25% af endurgjaldinu verði greitt með reiðufé og 75% verði í formi hlutabréfa í JBT. Það kemur jafnframt fram að hluthafar Marel muni eiga u.þ.b. 36% af hlutum í JBT eftir möguleg viðskipti. Engar frekari upplýsingar koma fram eða liggja fyrir um gengi hluta í JBT eða hugsanlegt skiptigengi.
Fyrr í morgun voru viðskipti með bréf í Marel stöðvuð í Kauphöllinni eftir að gengi bréfanna hækkaði um 28,5%, eða úr 350 krónum á hlut í 450 krónur á hlut. Er nú verið að setja viðskiptin af stað á ný með tilboðum.