Til tíðanda dró í nótt þegar Marel sendi tilkynningu til Kauphallarinnar um að bandaríska stórfyrirtækið John Bean Techologies Corporation(JBT), hefði lagt fram óskuldbindandi yfirtökutilboð í Marel. Tilboðið er háð samþykki hluthafa JBT, eftirlitsaðila og 90% hluthafa Marels.
JBT var stofnað árið 2008 þegar FMC Technologies samstæðan seldi alla starfsemi fyrir utan orkuhlutann. Í ágúst sama ár var fyrirtækið skráð í Kauphöllina í New York. Fyrirtækið er leiðandi á heimsvísu í framleiðslu á tæknilausnum og þjónustu fyrir matvæla- og drykkjarvöruiðnaðinn. Þar má nefna lausnir fyrir vinnslu á kjöti, sjávarfangi og alifuglavörum, tilbúnum máltíðum, geymslupökkuðum matvælum, safa og mjólkurvörum og ávaxta-og grænmetisvörum.
Höfuðstöðvar JBT eru í Chigago borg í Illinois ríki og 7.200 manns starfa hjá félaginu.
Fyrirtækið rekur sögu sína alveg til ársins 1884 í Kaliforníufylki, þegar garðyrkjumaðurinn John Bean stofnaði Bean Sprey Pump Company. Fyrsta vara fyrirtækisins var stimpildæla til að dæla skordýraeitri á ávaxtagarða. Árið 1928 keypti Bean tvö önnur fyrirtæki og breytti nafninu í kjölfarið í Food Machinery Corporation eða FMC, sem seldi eins og fyrr segir alla hlutdeild sína JBT árið 2008.
Stærsti hluthafi JPT er BlackRock, stærsta eignarstýringafyrirtæki heims, með 14,15% hlut. Þá fara Vanguard eignastýringarsjóðirnir með 10,70%. Kauhallarsjóðurinn iShares Core Small CAP á 6,73%, Champlain fjárfestingasjóðurinn á 4,77% og T. Rowe eignastýringasjóðurinn 4,44%.
Markaðsvirði JBT er 3,39 milljarðar bandaríkjadala, tæplega 468 milljarðar króna. Til samanburðar er markaðsvirði Marels um 320 milljarðar króna.
JPT hefur með tilkynningu til kauphallarinnar í New York staðfest yfirtökutilboðið. Þar kemur fram að Eyrir invest, sem á sem kunnugt er fjórðungshlut í Marel, hafi skuldbundið sig til að samþykkja valfrjálsa tilboðið. Þá kemur jafnframt fram að Eyrir hafi skuldbundið sig til þess að selja ekki bréf sín í Marel öðrum á meðan tilboðið liggur fyrir.
Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum um tilkynningu JPT.