Gripu til fjöldastjórnunar á opnun Gina Tricot

Albert Magnússon ávarpar gesti við opnunina.
Albert Magnússon ávarpar gesti við opnunina.

Ný 280 fermetra tískuverslun Gina Tricot var opnuð með pompi og prakt í Kringlunni í gærkvöldi og er óhætt að segja að opnunin hafi farið langt fram úr vonum aðstandenda. Gríðarlegur fjöldi var mættur á staðinn þegar blaðamaður mbl.is leit þar við og stóð fólk lengi í biðröð til að komast inn í búðina.

Boðið var upp á léttar veitingar og skemmtilegar uppákomur. Þá sá plötusnúðurinn Dj Gandri um tónlistarflutning.

Stærri en opnun Lindex

Albert Magnússon, eigandi Lindex á Íslandi og umboðsaðili Gina Tricot, segir í samtali við mbl.is að viðtökurnar hafi verið í einu orði sagt rosalegar. „Þetta er sögulegt og án fordæma,“ segir Albert. „Þetta er stærra en opnun fyrstu Lindex verslunarinnar árið 2011 en hún var þá stærsta opnun í sögu þessa tæplega sjötíu ára gamla tískufyrirtækis.“

Hann segir opnunina hafa farið fram úr sínum björtustu vonum. „Við þurftum að grípa til fjöldastjórnunar og kalla út þrefaldan mannskap á öryggisvakt.“

Viðskiptavinir skoða Gina Tricot varning í nýju búðinni.
Viðskiptavinir skoða Gina Tricot varning í nýju búðinni.

Aldrei séð aðra eins stemningu

Baldvina Snælaugsdóttir markaðsstjóri Kringlunnar er í skýjunum með viðtökurnar.

„Við í Kringlunni erum í skýjunum með stórkostlegar viðtökur við opnun glæsilegrar verslunar Ginu Tricot. Við höfum á undanförnum vikum orðið vör við eftirvæntingu viðskiptavina en aðsóknin og stemningin  á opnunarkvöldinu fór langt fram úr okkar björtustu vonum – í raun höfum við aldrei séð aðra eins stemningu. Gina Tricot er rokkstjarna og rós í hnappagat Kringlunnar," segir Baldvina.

Á morgun heldur fjörið áfram þegar Gina Tricot opnar á Akureyri, eins og Albert orðar það í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK