Það er óhætt að segja að hlutabréfamarkaðurinn hafi opnað fagurgrænn nú í morgunsárið. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um tæp 9% það sem af er degi, en þar munar vissulega mestu um 30% hækkun á gengi Marels eftir að óformlegt yfirtökutilboð barst í félagið í nótt. Viðskipti með bréf í félaginu voru stöðvuð tímabundið en hafa nú verið heimiluð á ný.
Það hafa þó fleiri félög hækkað það sem af er degi. Þegar þetta er skrifað, um kl. 11, hefur gengi bréfa í Alvotech hækkað um 7,7%, bréf í Íslandsbanka um 6,5%, í Reitum um 5,5% og í Brim um 5,4%. Bréf í Eik, Kviku og Icelandair hafa einnig hækkað meira en 5%.
Þó er rétt að taka fram að það eru ekki mikil viðskipti á bakvið fyrrnefndar hækkanir. Velta með bréf í Alvotech nemur um 230 milljónum króna, velta með bréf í Reitum er um 170 milljónir og í Íslandsbanka nemur hún um 250 milljónum króna. Mest er veltan með bréf í Síldvarvinnslunni (sem birti uppgjör í gær), eða tæpar 500 milljónir króna, en gengi bréfa í félaginu hefur hækkað um 1,7%.
Hækkanirnar í morgun eru þó ákveðin viðbrigði við þeirri stöðu sem hefur ríkt á hlutabréfamarkaði á undanförnum misserum, þar sem flest öll skráð félög hafa lækkað umtalsvert.