Klukkan 10 í dag opnar Bónus nýja verslun í Miðhrauni í Garðabæ. Um er að ræða 33. Bónus verslunina.
Í tilkynningu kemur fram að nýja verslunin sé samtals 2.300 fermetrar.
„Við erum afar stolt af þessari nýju verslun okkar í Miðhrauni en við hönnun verslunarinnar var hugað vel að því að hver fermetri væri nýttur á sem bestan hátt, kælar verslunarinnar eru stórir og rúma vel þær íslensku framleiðsluvörur sem skipa mjög stóran sess í vöruvali okkar, sérstaklega íslenskar landbúnaðarvörur. Svo er verslunin í alfaraleið hvort sem er fyrir Garðbæinga og Hafnfirðinga eða alla þá sem eiga leið um svæðið. Bónus er ávallt með umhverfið í öndvegi og reynum við að skilja sem minnst umhverfisfótspor eftir okkur. Má þar nefna kælikerfin, lýsinguna, hillurnar og svo endurnýtum við allar þær umbúðir sem falla til í rekstri,“ er haft eftir Guðmundi Marteinssyni, framkvæmdastjóra Bónus.