Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, tekur undir áhyggjur Seðlabankans um að mikil og hröð aukning verðbólgu hafi laskað kjölfestu verðbólguvæntinga sem geti haft áhrif á getu bankans að ná verðbólgumarkmiði sínu.
Seðlabankinn lýsti áhyggjum í ritinu Peningamálum fyrir fjórða ársfjórðung, sem kynnt var samhliða síðustu skipulögðu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar á árinu í vikunni, og sagði þar að vísbendingar væru um að eðli verðbólguferilsins hafi breyst undanfarið og að kostnaðarhækkanir hafi meiri og langvinnari áhrif á verðbólgu en á seinni hluta síðasta áratugar.
Það megi rekja til þessarar þróunar kjölfestu verðbólguvæntinganna. Bankinn telur líklegt að þessar eðlisbreytingar eigi þátt í því að verðbólgan hafi reynst meiri og þrálátari en grunnspár hans hafi gert ráð fyrir.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, tekur undir þessar áhyggjur bankans að ákveðnu leyti. Hún segist í samtali við mbl.is hafa áhyggjur af ýmsu til skemmri tíma, millilangs tíma og lengri tíma þegar kemur að kjölfestu verðbólguvæntinga.
Þórdís segir það litast af mikilvægi þess að teknar séu réttar og ábyrgar ákvarðanir, í hvaða hlutverki sem fólk sé. Að komist sé á þann stað að geta skapað traust um að vera samtaka og vilja gera það sem er ábyrgt og rétt.
„Ef okkur farnast að gera það mun þessi mynd breytast hraðar og við munum ná árangri fyrr. Hluti af vandanum er að fólk trúir ekki alveg að okkur muni takast það. Hvað getum við gert í því? Við getum meint það þegar við segjumst vilja raunverulega gera það sem er ábyrgt og rétt, okkur öllum til heilla.
Þá þurfum við bæði að tala saman og passa okkur á að benda ekki bara á hvert annað heldur einnig að líta til þess hvað við getum sjálf gert og náð saman um það lágmarkstraust sem þarf að vera til staðar um að þetta sé plan og við séum öll á því plani og við ætlum öll að fylgja því plani.“
Hún segir að ástandið þurfi ekki að vera svona til mjög langs tíma en segir það fara eftir því hvað við gerum. Hún segir enga töfralausn til og að vandinn leysist ekki eins og fingri sé smelt og að verðbólgan minnki og vaxtastigið hrynji niður.
„Við vitum að það er undir okkur komið hvort ástandið verði til mjög langs tíma eða bara millilangs.“
Þórdís sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að það væri ekki tímabært að mæta einhverjum hugsanlegum hækkunum á verðbólgu með því að auka sparnað í öðrum málaflokkum vegna jarðhræringa síðustu vikna.
Blaðamaður bað hana að útskýra betur hvað hún ætti við með þeim orðum. Hún segir fjárlagafrumvarpið vera inni í þinginu og samtal við fjárlaganefnd vera opið um ákveðnar tillögur fyrir aðra umræðu.
„Þar lögðum við grundvallaráherslu á að við gætum áfram haldið því til haga að við værum að styðja við peningastefnu og ekki að ganga of langt.“
Þá segir hún ekki vitað hvað óvissan og óveðurskýið sem vofir yfir Reykjanesskaganum komi til með að þýða. Hún segist átta sig á því að nú sé komið inn í lok nóvember og verið sé að tala um fjárlög ársins 2024 en ekki fjármálaáætlun til næstu ára og að það séu einhver takmörk fyrir því hvað hægt sé að brjóta mikið upp skömmu fyrir nýtt fjárlagaár þar sem kerfið og fólkið sem er að gera ráð fyrir fjármununum er löngu byrjað að vinna sín plön.
„Mér finnst samt mikilvægt að slá þann fyrirvara að þegar óvæntir hlutir gerast og fordæmalausar aðstæður skapast þá gangi það í báðar áttir og við höldum því til haga að það geti gerst að við þurfum að taka aðrar ákvarðanir, einmitt vegna þess að afleiðingar og viðbrögð við þessu ástandi geta haft neikvæð áhrif á stóra verkefnið að ná niður verðbólgu og vöxtum.“
Þar segir Þórdís forgangsröðina algjörlega skýra.
„Við auðvitað gerum það sem gera þarf gagnvart óvissu, hvort sem það er í einhverri uppbyggingu eða að aðstoða fólk sem er í þeirri stöðu að hafa þurft að fara út af heimili sínu og þarf að gera sín plön fyrir að minnsta kosti næsta skóalvetur.“
Þannig segir hún að alla vega þurfi í hið minnsta að líta til þess þegar unnið er að fjármálaáætlun sem birtist í vor að tekið sé tillit til þess hver raunstaðan sé og hvað hún kalli á.
„Kallar hún á breytta nálgun og breytt plön? Mögulega og þá hljótum við að skoða það, annað væri óábyrgt.“
Ráðherra segir um marglaga verkefni að ræða og stærsta verkefnið fyrir þá sem tilheyra grindvísku samfélagi og búa þar.
„Það er það sem þarf bæði að skynja og hlusta og skilja. Þetta er líka marglaga verkefni fyrir okkur og þess vegna er mikilvægt að hreyfa sig hratt og bregðast við og gera það sem þarf.
Það er líka mikilvægt í svona aðstöðu að einhverjir taki það að sér að anda aðeins ofan í maga, átta sig betur á aðstæðum, fá yfirsýn og tala af yfirvegun með raunsæjum ábyrgum hætti. Við sjáum það þessa daga miðað hvað hvað hlutirnir breytast hratt að það er mikilvægt að gera nákvæmlega það.“