Mikill hagvöxtur skapi vandamál

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri flutti ávarp á Peningamálafundi Viðskiptaráðs í vikunni.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri flutti ávarp á Peningamálafundi Viðskiptaráðs í vikunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telur að mikill hagvöxtur á Íslandi skapi ákveðin vandamál í hagkerfinu.

Hann sagði í ávarpi sínu á Peningamálafundi Viðskiptaráðs í vikunni að hagvöxtur hér á landi sé að meðaltali miklu meiri en annars staðar og sagði margar ástæður liggja að baki; háa fæðingartíðni, innflutning á vinnuafli, auðlindir okkar og fleira. Sagði hann hagvöxt á Íslandi hafa aukist töluvert umfram það sem tíðkast til dæmis á Norðurlöndunum.

Raunlaun ekki lækkað að neinu marki

Ásgeir sagði raunlaun hafa aukist meira á Íslandi en í öðrum þróuðum ríkjum og ekki lækkað að neinu marki á síðustu þremur árum.

„Okkur heppnaðist að komast í gegnum faraldurinn án þess að kaupmáttur lækkaði, sem var afrek. Fólk í löndunum í kringum okkur hefur tekið á sig mikla kaupmáttarlækkun. Það höfum við ekki gert.“

Peningamálafundur Viðskiptaráðs var vel sóttur að vanda.
Peningamálafundur Viðskiptaráðs var vel sóttur að vanda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fasteignaverð elti launaþróun

Þá vék Seðlabankastjóri orðum sínum að fasteignamarkaðnum. Sagði hann húsnæðisverð hafa hækkað mikið hér á landi og eftirspurn aukist á markaðnum með innflutningi vinnuafls og stórum árgögnum inn á hann.

Sagði hann nýbyggingar ekki hafa haldið í við eftirspurn eða ný hverfi verið brotin undir byggingar og sagði hann fasteignaverð elta launaþróun hér á landi þegar litið sé til lengri tíma.

„Í 100 ár hafa Íslendingar varið sama hluta launa á fasteignamarkaðinn eða um 20%.“

Sjö vörður að stöðugleika

Að endingu fór Seðlabankastjóri yfir þá áætlun með fundamönnum sem bankinn vinnur eftir til að ná tökum á stöðunni, svo kallaðar sjö vörður að stöðugleika í litlu opnu hagkerfi en þær eru:

  1. Verðbólgumarkmið er grundvöllur hagstjórnar.
  2. Samþætt ábyrgð Seðlabankans og gagnsæ ákvörðunartaka.
  3. Stöðugleiki greiðslujafnaðar er forsenda efnahagslegs stöðugleika í litlu opnu hagkerfi.
  4. Beiting þjóðhagsvarúðartækja er nauðsynleg til að koma í veg fyrir skuldabólu.
  5. Öflugt fjármálaeftirlit þarf til þess að takmarka áhættutöku og bólumyndun í fjármálakerfinu.
  6. Stöðugleiki á vinnumarkaði er undirstaða verðstöðugleika – launahækkanir umfram framleiðni hafa mjög slæm áhrif.
  7. Peningastefnan þarf pólitískan stuðning.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, ásamt Gylfa Gíslasyni, …
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, ásamt Gylfa Gíslasyni, framkvæmdastjóra Jáverks, á Peningamálafundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þurfum að fylgja leikreglunum

Ásgeir sagði ástæðuna fyrir því að við höfum ekki fundið stöðugleika á Íslandi ekki vera þá að við höfum ekki fundið réttu peningastefnuna.

„Þú þarft að fylgja leikreglum þeirrar stefnu sem þú velur þér. Aðrar þjóðir hafa kosið að fylgja leikreglum sinnar peningastefnu og hafa fellt þær inn í sinn samfélagssáttmála.

Íslendingar viðast álíta að þeir geti búið við langtum meiri hagvöxt og launahækkanir en aðrar þjóðir en samt búið við sömu vexti og verðbólgu – það er ekki mögulegt.

Við getum náð árangri ef við fylgjum leikreglunum og sýnum staðfestu,“ sagði Seðlabankastjóri að lokum á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK