RARIK hefur ráðið til sín Kristínu Soffíu Jónsdóttur sem framkvæmdastjóra þróunar og framtíðar RARIK en um nýja stöðu er að ræða samkvæmt nýju skipulagi RARIK sem tók gildi 1. október.
Kristín Soffía kemur frá Leitar Capital Partners en hún situr jafnframt í stjórn Orkusölunnar ehf., dótturfyrirtækis RARIK. Þar áður var hún framkvæmdastjóri hjá KLAK – Icelandic Startups. Hún hefur enn fremur starfað sem borgarfulltrúi um margra ára skeið. Þá stofnaði Kristín félagið Sea Fuel ehf. sem undirbjó framleiðslu á ammoníaki, að því er fram kemur á vef RARIK.
„Kristín Soffía hefur víðtæka og fjölbreytta reynslu af störfum úr nýsköpun og frumkvöðlastarfi sem hentar vel fyrir komandi verkefni hennar í Þróun og framtíð þar sem áherslan verður lögð á þau miklu tækifæri sem felast í breytingum sem eru að raungerast á sviði orkumála og í verkefnum dreifiveitna,“ segir enn fremur.