Umhverfisdagur atvinnulífsins er haldinn hátíðlegur í Hörpu í dag undir yfirskriftinni Á rauðu ljósi?
Dagskráin fer fram á milli klukkan 13 og 15 og verður í beinu streymi hér á mbl.is.
Dagurinn í ár er tileinkaður loftslagsvegvísum atvinnulífsins sem voru afhentir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, á vormánuðum. Þar komu fram 332 tillögur að aðgerðum sem eiga að stuðla að auknum samdrætti í losun atvinnugreinanna. Tillögurnar og aðgerðir þeim tengdum eru til umfjöllunar þar sem ráðherrar og atvinnulíf kryfja framhaldið.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og Guðlaugur Þór verða á meðal gesta og mun sá síðastnefndi flytja lokaávarpið.
Dagskránni lýkur með hinum árlegu umhverfisverðlaunum atvinnulífsins sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhendir.
Umhverfisdagurinn er sameiginlegt verkefni SA, SAF, Samorku, SFF, SFS, SI og SVÞ.