Verðbólga í takti við spár: Húsnæðisverð hækkar

Hjalti segir húsnæðisverð á landsbyggðinni aðeins tosa upp íbúðaverðið í …
Hjalti segir húsnæðisverð á landsbyggðinni aðeins tosa upp íbúðaverðið í þessum mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjalti Óskars­son, hag­fræðing­ur hjá hagfræðideild Lands­bank­an­s, segir verðbólgutölur fyrir nóvember í takti við það sem bankinn og aðrir höfðu spáð. Segir hann áhugavert að að hækkun á húsnæði hafi verið nokkuð mikil í þessari mælingu.

Segir Hjalti í samtali við mbl.is að hagfræðideild Landsbankans hafi spáð því að 12 mánaða verðbólga yrði 8,1% en raunin varð 8%, sem hann segir nú ekki munar mjög miklu.

Húsnæðisverð á landsbyggðinni tosar upp íbúðaverð

„Húsnæðis- og mannvirkjastofnun var búin að gefa út vístölu íbúðaverðs sem hækkaði um 0,9% á milli mánaða en þar er landsbyggðin ekki tekin með. Hagstofan reiknar svipaða vísitölu sem er innlegg inn í reiknuðu húsaleiguna og þar er landsbyggðin líka tekin með.

Hjá Hagstofunni hækkaði húsnæðisverðið um 1,4%. Það segir okkur að húsnæðisverð á landsbyggðinni er aðeins að tosa upp íbúðaverðið í þessum mánuði. Til þess að landsbyggðin geti tosað upp íbúðaverð þarf meiri hækkun þar en á höfuðborgarsvæðinu.“

Hjalti Óskars­son, hag­fræðing­ur hjá hagfræðideild Lands­bank­an­s, segir að til þess …
Hjalti Óskars­son, hag­fræðing­ur hjá hagfræðideild Lands­bank­an­s, segir að til þess að landsbyggðin geti tosað upp íbúðaverð þurfi nokkuð mikið meiri hækkun þar en á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Hallur Már

Útsölur, meiri lækkun flugfargjalda og minni hækkun á matvælum

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 8% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 7,2%.

Þetta segir Hjalti þýða að verð á öllu öðru en húsnæði í vísitölunni hafi lækkað að meðaltali á meðan húsnæði hefur hækkað.

„Það er í sjálfu sér áhugavert, ég er ekki alveg búinn að greina tölurnar en mig grunar að útsölur gætu haft áhrif þarna en það var mikið um útsölur í nóvember.

Flugfargjöld til útlanda lækkuðu meira en við spáðum og verð á bílum lækkaði sem er einnig áhugavert.

Þá hækkaði verð á matvöru miklu minna en við höfðum spáð. Við spáðum 0,8% hækkun á matvælum en þau hækkuðu aðeins um 0,2%. Sennilega hafa mjólkurverðhækkanir, sem við gerðum ráð fyrir að myndu koma meira fram núna, komið að fullu fram í seinasta mánuði.“

Verðbólga lækki á nýju ári

Hjalti segist ekki eiga von á að hagfræðideild Landsbankans myndi gera miklar breytingar á því sem deildin sér fyrir sér á næstu mánuðum. Segir hann verðbólgu sennilega verða eitthvað á þessu bili í desember en síðan lækki hún töluvert í janúar og febrúar.

„Janúar og febrúar á þessu ári voru svo stórir að þegar þeir detta út úr 12 mánaða taktinum gerum við ráð fyrir lækkun. Nýjasta spáin gerir ráð fyrir 7,3% verðbólgu í janúar og 6,7% í febrúar.“

Hann segir að ekki sé endilega gert ráð fyrir að mæld 12 mánaða verðbólga verði hærri í desember.

„Síðasta spá okkar var held ég 8,3% fyrir desember en ég held að hún lækki aðeins þar sem þessi mæling var lægri en gert var ráð fyrir. Þannig held ég að spáin fyrir desember verði líklega eitthvað svipuð og sú fyrir nóvember.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK