Við erum greinilega ekki á sama báti

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Landssambands íslenskra verzlunarmanna.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Landssambands íslenskra verzlunarmanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Landssambands íslenskra verzlunarmanna, segir að verðbólgumælingin sem tilkynnt var í dag fyrir nóvembermánuð leggist ekki vel í mannskapinn.

Segir Ragnar í samtali við mbl.is að ef stjórnvöld og atvinnulífið vilji að allir séu á sama báti þá þurfi fólk að haga sér þannig.

Húsnæðisverð og vextir keyri áfram verðbólgu

„Það er ekki að gerast. Við í verkalýðshreyfingunni getum ekkert annað en beðið eftir að sjá hvernig staðan verður en við erum greinilega ekki á sama báti. Stjórnvöld , sveitarfélögin og fyrirtækin í landinu þurfa að sýna það í verki að þeim sé alvara. Það er ekki að gerast núna en þau þurfa að gera það.“

Hann segir að sú 8% verðbólga á ársgrundvelli sem tilkynnt var um komi ekki á óvart.

„Við höfum verið að benda á áhrif efnahagsstefnunnar og stefnu seðlabankans á verðbólgu. Helstu atriðin sem eru að keyra áfram verðbólguna núna eru húsnæðisverð og vextir. Það hlýtur að setja stórt spurningamerki ykkar fjölmiðlafólks til Seðlabankans sem ber ábyrgð á þessari stöðu.“

Ragnar bendir á samsetningu á vísitölunni og segir að reiknuð húsaleiga hafi hækkað jafn mikið og verðbólgan síðasta mánuðinn. Svo séu aðrir hlutir eins og flugfargjöld sem haldi niðri öðrum þáttum sem hafa hækkað.

„Ef við tökum samsetninguna á reiknuðu húsaleigunni eru langstærstu þættirnir í hækkuninni markaðsverðið og vaxtaþátturinn. Markaðsverð getur sveiflast eitthvað til á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar en annað ýtir undir hitt eins og allar tölur sýna. Þessar tölur staðfesta algert skipbrot efnahagsmála og peningastefnu Seðlabankans.“

Þá gerir Ragnar samanburð við verðbólgu á hinum Norðurlöndunum þá erum við með verðbólgu í 8% hér á Íslandi en undir 4% í samanburðarlöndum.

„Ef þú skoðar samanburð launahækkana í samanburðarlöndum þá erum við miðað við fyrsta ársfjórðung í fyrra og svo núna í rétt rúmum 7% hér á landi sem er rétt fyrir meðallagi þess sem gerist í kringum okkur. Þannig að það er ekki hægt að kenna launahækkunum um verðbólguþróunina hérna, það er bara ekki hægt.“

„Verulega hugsi yfir vitleysunni sem kemur út úr Seðlabankanum“

Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri sagði á dögunum í ávarpi á Peningamálafundi Viðskiptaráðs að raun­laun hafi auk­ist meira á Íslandi en í öðrum þróuðum ríkj­um og ekki lækkað að neinu marki á síðustu þrem­ur árum. Sagði hann fólk í lönd­un­um í kring­um okk­ur hafa tekið á sig mikla kaup­mátt­ar­lækk­un annað en við á Íslandi.

Ragnar segir þennan málflutning Seðlabankastjóra ekki standast neina skoðun.

„Kaupmáttur hefur dregist saman hérna miðað við fyrsta ársfjórðung á síðasta ári og þessu. Kaupmáttur hefur dregist meira saman til dæmis í Skandinavíu þar sem laun hafa hækkað minna en hann hefur dregist saman hérna og raunlaun hafa lækkað. Þetta eru bara opinberar tölur.

Laun hafa ekki hækkað meira hér en annars staðar. Norðurlöndin skera sig svolítið úr hvað varðar launahækkanir frá ársbyrjun 2022 en þar hefur líka kaupmáttarrýrnunin orðið mest en verðbólga er alls staðar að dragast saman þó svo raunlaun hafi hækkað eða lækkað.

Þetta stenst enga skoðun og maður er orðinn verulega hugsi yfir vitleysunni sem kemur út úr Seðlabankanum og ég er ekkert einn um það. Stjórnendur fyrirtækja eru farnir að spyrja sig hvert við erum að stefna á þessu landi miðað við þessa stefnu.

Hér er fólk að fara í stórum stíl yfir í verðtryggðu lánin því það hefur ekki efni á að borga raunvextina. Það er að halda ákveðnum þrýstingi inn á fasteignamarkaðinn.

Hvað mun síðan gerast þegar Seðlabankinn fer að lækka hér vexti? Íbúðaverð mun hækka, það framboð sem til er mun þurrkast upp á örskömmum tíma og ekkert er búið að byggja. Það tekur 18-24 mánuði að byggja íbúðir.

Það sjá þetta allir en það tala fáir um þetta. Það er því miður ótrúleg meðvirkni innprentuð, bæði hjá stjórnvöldum og hjá okkar viðsemjendum eins og Samtökum atvinnulífisins, gagnvart þessari stefnu sem Seðlabankinn hefur verið að taka í vaxtamálum. Þetta er óskiljanlegt.“

„Þetta hefur einfaldlega ekki verið efnt“

Hversu mikilvægt er að kljúfa húsnæðisliðinn út úr neysluverðsvísitölunni?

„Við erum búin að vera með þetta sem kröfu í mörg mörg ár og sömdum um þetta í lífskjarasamningunum 2019. Þetta hefur einfaldlega ekki verið efnt af hálfu stjórnvalda.

Það jákvæða í þessu er að Hagstofan og fleiri eru farin að sjá mikilvægi þess að reikna vísitöluna út með sambærilegum hætti og gert er annars staðar - komast nær samræmdu vísitölunni. Þannig að ég er vongóður að það náist árangur í því.“

Ragnar segist vonast til að þetta verði gert áður en vaxtalækkunarferli hefst.

„Þegar þú semur um eitthvað og það er ekki efnt þá er ómögulegt að segja hvað gerist.“

Seinka atlögu að kjarasamningum vegna umræðu um gjaldskrárhækkanir

Hann segir að vonir verkalýðshreyfingarinnar haf staðið til að gera atlögu að langtímakjarasamningi núna í desember og að sá samningur yrði á forsendum og grunni lífskjarasamninganna.

„En ég get staðfest að stóru landssamböndin og félögin innan ASÍ eru búin að taka stórt skref aftur á bak og við ætlum ekkert að byrja að ræða um nýjan kjarasamning fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári - í byrjun janúar.

Nú er hið opinbera og sveitarfélög sérstaklega að ræða 5-7 og alveg upp í 30% gjaldskrárhækkanir sem taki gildi um áramót og svo er fólk að tala um að við þurfum að vera í sama bátinum.

Verðbólgan er keyrð hér áfram á húsnæðisverði og stýrivöxtum og við eigum að vera í einhverjum sama báti með öllu þessu fólki. Þetta er bara orðin hrein sturlun hvernig er látið í þessu samfélagi.

Við erum ekkert saman í neinum bátum fyrr en sveitarfélög, stjórnvöld og Seðlabanki eru tilbúin að horfast í augu við þann veruleika sem okkar fólk er að búa við núna og hefur búið við síðustu mánuði út af gríðarlegum hækkunum á nauðsynjavöru, húsnæðiskostnaði, hvort sem um ræðir leigu eða húsnæðislán og nái sér niður á jörðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK