Búið er að samþykkja yfirtökutilboð íslenska eignarhaldsfélagsins Norvik í sænsku samstæðuna Bergs Timber. Viðskiptin ganga í gegn með uppgjöri á morgun.
Norvik átti fyrir 58,7% hlutafjár í Bergs og beindist yfirtökutilboðið því að 41,3% hlut í félaginu. Eigendur að 36,7% hlut í Bergs samþykktu tilboð Norvik og hafa eigendur að hinna 4,6% hluta í Bergs frest til 12. desember til að samþykkja tilboðið.
Norvik er því komið með þann hlut sem þarf til að fara í innlausn útistandandi hluta, en í heildina eru þeir með 95,4%.
Norvik þurfti samþykki eigenda Bergs að 32,3% hlut í félaginu, þá væri Norvik með 90% af heildarhlutaféi, til þess að tilboðið yrði samþykkt. Tilboðið hljóðaði upp á gengið 44,50 sænskar krónur fyrir hvern hlut í Bergs í reiðufé.
Gísli Jón Magnússon, framkvæmdastjóri Norvik, segir í samtali við mbl.is að hann sé ánægður með niðurstöðu.
„Við erum mjög glöð og okkar markmiðum náð. Við vorum að stefna að þessu og okkur hlakkar til að takast á við reksturinn með stjórnendum og starfsmönnum," segir Gísli.
Í tilkynningunni kemur fram að allir fyrirvarar tilboðsins, þar á meðal samþykki samkeppnisyfirvalda á Íslandi og Lettlandi, hafa verið uppfylltir.
„Norvik mun óska eftir afskráningu Bergs úr kauphöllinni Nasdaq Stockholm og innlausn útistandandi hluta í Bergs,“ segir meðal annars í tilkynningunni.
Norvik er í eigu Jóns Helga Guðmundssonar. Fyrirtæki sem Norvik á hlut í eru til að mynda Byko, Kaldalón og Heimkaup. Bergs Timber er samstæða sem samanstendur af sjálfstæðum dótturfélögum sem þróa, framleiða og markaðssetja timburafurðir. Um 1.400 manns vinna hjá félaginu.