Festi og Olís, dótturfélag Haga, hafa sameiginlega ráðið Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka til ráðgjafar um stefnu og framtíðarmöguleika hvað varðar eignarhluti félaganna í Olíudreifingu ehf., Eldsneytisafgreiðslunni á Keflavíkurflugvelli ehf. (EAK) og EBK ehf.
Í tilkynningu sem bæði Festi og Hagar sendu á Kauphöllina í morgun kemur fram að stefnumarkandi vinna sé nú að hefjast varðandi félögin. Allt eru þetta innviðafélög sem halda utan um birgðahald og dreifingu á eldsneyti á Íslandi. Meginstarfsemi Olíudreifingar er birgðahald og dreifing á eldsneyti um land allt en meginstarfsemi EAK og EBK er birgðahald og dreifing á flugvélaeldsneyti á Keflavíkurflugvelli.
Festi á 60% hlut í Olíudreifingu til móts við Olís sem á 40% hlut í félaginu. Þá eiga bæði félögin þriðjungshlut í EAK og fjórðungshlut í EBK.
Fram kemur í tilkynningunni að til stendur að kanna möguleika á breyttu eignarhaldi, eftir atvikum í samvinnu við aðra hluthafa EAK og EBK, með það að markmiði að hámarka verðmæti hluthafa, einfalda eignarhaldið og um leið tryggja hagfellda framtíðarþróun innviða þeirra.