Gengið hefur verið frá kaupum móðurfélags Stólpa Gáma ehf. á öllu hlutafé í Alkuli ehf. kæli- og frystitækjaþjónustu.
Seljandi er Fjölnir Freyr Haraldsson, framkvæmdastjóri Alkuls. Við kaupin verður til nýtt þjónustusvið innan samstæðu Stólpa Gáma sem mun sinna viðhaldi og þjónustu á kæli- og frystibúnaði, að því er segir í tilkynningu.
Fjölnir mun stýra uppbyggingu þessa þjónustusviðs sem starfsmaður Stólpa Gáma. Horft er til þess að efla þessa þjónustu bæði varðandi stóra notendur í matvælaiðnaði og einnig við frystigámaflota skipafélaganna.
„Það er mjög ánægjulegt að hafa náð þessum áfanga með kaupum á Alkuli ehf. Við þekkjum fyrirtækið af góðum viðskiptum á undaförnum árum og treystum Fjölni til að leiða uppbyggingu á framúrskarandi þjónustu á þessu sviði með sinni miklu þekkingu og reynslu. Ég vil einnig sérstaklega bjóða viðskiptavini Alkuls velkomna í hóp viðskiptavina Stólpa Gáma,” segir Börkur Grímsson, framkvæmdastjóri Stólpa Gáma, í tilkynningunni.