Beiðni Árna Odds Þórðarsonar, fyrrverandi forstjóra Marels, um framlengingu greiðslustöðvunar var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Innherji greinir frá.
Tæpur mánuður er síðan Árni Oddur hætti sem forstjóri Marel vegna ágreinings við lánveitenda sinn, Arion banka. Arion banki leysti til sín yfir 4,87% hlut Árna Odds í Eyri Invest sem á 24,67% hlut í Marel.
Í kjölfarið greindi Árni Oddur frá því að hann hefði fengið greiðslustöðvun samþykkta vegna þeirrar réttar óvissu sem skapast hefur vegna aðgerða Arion banka.
Segir í umfjöllun Innherja að úrskurður héraðsdóms hafi komið í kjölfar munnlegs málflutnings síðasta föstudag. Tókust þar á aðstoðarmaður Árna Odds í greiðslustöðvuninni og lögmaður Landsbankans.
Landsbankinn er kröfuhafi á hendur Árna Odds og er m.a. lánveitandi Árna Odds Þórðarsonar ehf., sem á 1,3% hlut í Eyri Invest. Í frétt Innherja segir að Landsbankinn hafi einnig gert veðkall í bréf Árna Odds – sem hann hélt á í gegnum framangreint félag – en aðhafðist ekki áður en Árni Oddur fékk samþykkta greiðslustöðvun.