„Mér sýnist allt vera að snúast við“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist eiga von á því að hagkerfið sé komið í aðlögun eftir verðbólgu- og þensluskeið og að nú sé að koma fram minnkandi neysla og aukið aðhald. Þá segir hann lausafjárstöðu bankanna „hrikalega góða“. Þetta var á meðal þess sem kom fram í máli hans á kynn­ing­ar­fundi eft­ir yf­ir­lýs­ingu fjár­mála­stöðug­leika­nefnd­ar í morg­un.

Ásgeir var á fundinum spurður út í nýlegar þjóðhagstölur þar sem einkaneysla var undir væntingum markaðarins. Spurt var hvort Ásgeir ætti von á uppfærðum tölum síðar meir sem myndu hækka einkaneysluna, eða hvort hann trúði núverandi tölum og hvort þar væri horft á versnandi fjármálaskilyrði vegna minnkandi efnahagsumsvifa.

„Ég á von á því að hagkerfið sé komið í aðlögun,“ sagði Ásgeir. „Það sem gerðist á síðasta ári og þessu ári að einhverju marki, var að fólk hafði á þessum tveimur farsóttarárum lagt til hliðar pening og ekki náð að eyða. Það gat ekki farið úr landi í tvö ár til dæmis. Í ljósi þessa braust mjög mikil neysla fram. En mér sýnist allt vera að snúast við. Að við séum að sjá minnkandi einkaneyslu og aukið aðhald og að einhverju leyti líka hafa háir vextir leitt til þess að fólk er farið að spara mjög mikið.“

Telur Ásgeir jafnframt að þessi þróun muni halda áfram. „Ég hef fulla trú á að það sé að koma aðlögun í einkaneyslunni og að það muni halda áfram.“

Sagði Ásgeir almenning í auknum mæli leggja fjármuni inn á bankareikninga og að í núverandi ástandi væri lausafjárstaða fjármálakerfisins orðin „hrikalega góð.“

„Fólk bara leggur pening inn á bankareikning og bankarnir hafa verið að draga úr útlánum þannig að þeir eru fullir af lausafé.“ Hann sagði þetta þó ekki endilega jákvæðar fréttir fyrir bankana og að ekki væri rétt eins og stundum væri sagt að bankarnir hagnist á auknum innlánum. Sagði Ásgeir þessi auknu innlán setja aukið álag á bankana og að háir vextir í langan tíma gætu grafið undan bankakerfinu, líkt og dæmi sanni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK