Nýr stjórnarformaður dala.care

Teymið sem vinnur við þróun dala.care-hugbúnaðarins; Ása Rún Björnsdóttir, Gísli …
Teymið sem vinnur við þróun dala.care-hugbúnaðarins; Ása Rún Björnsdóttir, Gísli Hrafnkelsson, Finnur Pálmi Magnússon, Guillaume Meunier, Guðjón Geir Jónsson og Berglind Brá Jóhannsdóttir. Eyþór Árnason

Jim Rosenthal, forstjóri bandaríska fyrirtækisins Caring.com, hefur tekið við stjórnarformennsku í heilsutæknifyrirtækinu dala.care, dótturfyrirtæki hugbúnaðarfyrirtækisins Gangverks. Dala.care þróar stafrænar lausnir fyrir heimaþjónustugeirann, hér á landi og erlendis.

Caring.com er leiðandi tilvísunaraðili í Bandaríkjunum fyrir heimaþjónustu með tengsl við fleiri en 11.500 fyrirtæki sem bjóða heimaþjónustu, heimahjúkrun og langtímaúrræði fyrir eldri borgara og aðra.

230.000 fyrirspurnir

Caring.com fær yfir 230.000 fyrirspurnir á mánuði frá fjölskyldum í Bandaríkjunum sem eru í leit að réttri heimaþjónustu. Fyrirtækið virkar sem ráðgjafi og bókunarþjónusta, þar sem ráðgjafar þess útbúa umönnunaráætlanir útfrá þörfum og úthluta þeim til hentugustu þjónustuaðila á svæðinu.

Finnur Magnússon, vöruþróunarstjóri hjá dala.care segir að dala.care og Rosenthal hafi byrjað að tala saman um mitt ár 2022. „Hann var einn þeirra fyrstu sem fékk að kynnast kerfinu. Fljótlega byrjaði hann að mæla með því við sína samstarfsaðila,“ segir Finnur.

Hann segir að með komu Rosenthal í stjórnina formgerist og styrkist samstarfið milli fyrirtækjanna. Þá búi samstarfið dala.care betur undir komandi markaðssókn í Bandaríkjunum á næsta ári. „Rosenthal kemur inn með gríðarlega reynslu og tengslanet. Þetta er líka tækifæri fyrir okkur að fá raunverulega kynningu á okkar vörum hjá öllum þeim sem vinna með Caring.com.“

Jim Rosenthal, forstjóri hins bandaríska Caring.com.
Jim Rosenthal, forstjóri hins bandaríska Caring.com. Þóroddur Bjarnason

Dala.care er aðeins rúmlega eins árs gamalt fyrirtæki en Finnur segir að hlutirnir hafi gerst hratt. „Þetta er búin að vera hálfgerð rússíbanareið. Að vera komin með þungaviktarmann með okkur í lið hjálpar til við að ná betri fótfestu í Bandaríkjunum.“

Fjárfesting skoðuð

Spurður að því hvort að Caring.com muni í fyllingu tímans fjárfesta í dala.care segir Finnur að það sé eitt af því sem sé í skoðun.

Viðskiptavinum dala.care hefur haldið áfram að fjölga á síðustu vikum og mánuðum. Til dæmis eru nokkur sveitarfélög á Íslandi með búnaðinn í prófunum. Þá eru einstaklingar víða um heim byrjaðir að hlaða smáforritinu niður og nota fyrir sig og sínar fjölskyldur. „Viðskiptalíkanið er einfalt.  Verð á hvern skjólstæðing er tíu bandaríkjadalir,“ útskýrir Finnur.

Í tilkynningu segist Rosenthal heillaður af þeim hraða og þeirri skilvirkni sem dala.care hafi sýnt í að mæta þörfum markaðarins. „Lausnin þeirra er bæði öflug og notendavæn sem er lykilatriði fyrir okkar samstarfsaðila. Ég hlakka til að vinna með teyminu og takast á við þær alþjóðlegu áskoranir sem felast í að veita hágæða heimaþjónustu í framtíðinni,” segir Rosenthal.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK