Starfsleyfi fyrir olíubirgðastöðina í Örfirisey rennur út um næstu áramót. Umhverfisstofnun stefnir að því að gefa út nýtt starfsleyfi til næstu 12 ára, eða til ársins 2036.
Umhverfisstofnun ritaði skipulagsfulltrúa Reykjavíkur bréf hinn 1. nóvember síðastliðinn þar sem óskað var eftir formlegri umsögn hans vegna endurnýjunar á starfsleyfi olíubirgðastöðvar Olíudreifingar í Örfirisey.
Olíubirgðastöð í Örfirisey er með starfsleyfi sem gildir til ársins 2024. Faxaflóahafnir, eigandi landsins, endurnýjuðu fyrir nokkrum árum lóðaleigusamninga við Olíudreifingu ehf. og Skeljung hf. Gilda þeir flestir til loka árs 2030 en einn þeirra til 2036, samkvæmt upplýsingum Gunnars Tryggvasonar hafnarstjóra.
Skipulagsfulltrúinn vísaði erindinu til deildarstjóra aðalskipulags. Var það niðurstaða hans að á grundvelli ákvæða aðalskipulags og með hliðsjón af gildistíma lóðarleigusamninga séu ekki forsendur til að gefa út starfsleyfi til lengri tíma en 12 ára. Það sé í samræmi við ákvörðun Faxaflóahafna frá 15. nóv. sl. um að gera ekki athugasemd við endurnýjun leyfis til 12 ára.
Árið 2015 fluttu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tillögu um að reynt yrði að finna olíutönkum í Örfirisey nýjan stað. Gísli Gíslason, þáverandi hafnastjóri Faxaflóahafna, veitti umsögn um tillöguna og vitnaði m.a. í fyrrnefnda skýrslu verkefnisstjórnar um niðurstöður áhættumats og aðra staðarvalkosti:
„Ef ákveðið verður að flytja starfsemi olíubirgðastöðvarinnar frá Örfirisey þýðir það í raun byggingu nýrrar stöðvar á nýja staðnum og svo niðurrif stöðvarinnar í Örfirisey. Olíubirgðastöðin í Örfirisey hefur of afgerandi þýðingu fyrir eldsneytisdreifingu landsmanna til að hægt sé nema að litlu leyti að draga úr starfsemi þar fyrr en ný stöð er komin í gagnið,“ sagði Gísli.
Með skýrslunni frá 2007 fylgdi verðmat á mannvirkjum og búnaði Olíustöðvarinnar í Örfirisey. Samkvæmt því mati má álykta að bygging nýrrar birgðastöðvar myndi kosta tugi milljarða króna og tæki mörg ár.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.